,, Með þér er veturinn kertaljós, koss og stök rós.” segir í ástarljóðinu Með þér eftir Bubba Morthens. Það er fátt eins rómantískt og að fá rauðar rósir að gjöf. Þær eru hluti af náttúrunni, tákna ástina sjálfa og geta læknað hjartasár. Rósir eru eitt elsta tákn ástarinnar og hefur fegurð þeirra verið dásömuð í gegnum tíðina, enda eru þær taldar öðrum blómum fremri. En hvers vegna?
Rósir hafa vaxið villtar í náttúrunni í um 35 milljónir ára og til eru fjölmargar tegundir og afbrigði af þeim. Þessi fallegu blóm hafa fylgt mannkyninu frá upphafi en ekki er vitað með vissu hvenær menn fóru að tengja saman ást og rósir. Elstu heimildirnar eru frá því um 1600 fyrir Krist.
Rósir áttu alveg sérstakan sess hjá Rómverjum en sagan segir að ríkir Rómverjar hafi notað rósablöð til að skreyta rúm sín áður en þeir nutu ásta. Það gerðu þeir til að útbúa mjúkan og ilmandi flöt til að elskast á. Að veltast um í rósablöðum voru mikil hlunnindi því rósir í Rómarveldi blómguðust eingöngu í skamman tíma snemma sumars og tækifærin til ilmandi athafna fá. Þegar hin sýrlenska Damaskus rós var uppgötvuð og flutt til Rómar varð mikil bylting. Damaskus rósin blómstraði bæði vor og haust sem gerði Rómverjum kleift að njóta ásta á rósabeði tvisvar á ári. Rósirnar þóttu mjög dýrmætar og eingöngu á færi hástéttarinnar að leyfa sér slíkan munað.
Það kemur ekki á óvart að rósir hafi verið tileinkaðar gyðjum ástar og frjósemi, þeim Afródítu í grískum fræðum og Venus í þeim rómversku. Rósir táknuðu reyndar bæði ástir og leyndarmál. Veggir og loft húsa voru gjarnan skreytt með rósum til að minna á að það sem færi fram innan þessara veggja ætti ekki að fara lengra. Þaðan er máltækið ,,að tala undir rós” líklega komið og þýðir að gefa eitthvað í skyn.
Tenging ástarinnar við rauðar rósir hefur lifað í gegnum aldirnar og er að finna skírskotun í þær í flestum menningum. Rauðar rósir birtast í mörgum myndum í listasögu mannkynsins hvort sem það er á veggmyndum frá 1600 fyrir Krist eða í leikritum Shakespears. Í frönskum ljóðum á miðöldum fóru rósir að tákna kynhvöt kvenna og lifði sú táknmynd inn í bókmenntir endurreisnarinnar.
Merking rósa eins og hún birtist í dag á hins vegar rætur sínar að rekja til viktoríutímabilsins. Á þeim tíma þótti ekki við hæfi að hafa orð á tilfinningum sínum og því voru blóm ein leið til að tjá sig án þess þó að segja neitt. Því varð fólk mjög upptekið af merkingu blóma þar sem að hver litur fékk sína merkingu. Rauður fyrir ástina og gulur fyrir vináttu eru þekkt dæmi. Þessi hefði hefur haldist til dagsins í dag þar sem að fátt þykir rómantískara en að gefa þeim sem maður elskar rauðar rósir. Rósin er tákn þess að elska og að vera elskaður.