Uncategorized @is

Hvernig getur meðferð við brjóstakrabbameini haft áhrif á kynlíf kvenna?

október 10, 2019

Höfundur:

Sóley S. Bender, prófessor

 

Það hefur sýnt sig að sjálfsmynd kvenna skiptir miklu máli varðandi vellíðan þeirra sem kynvera. Mikilvægur hluti sjálfsmyndar er líkamsímynd. Meðferð við brjóstakrabbameini getur haft margvísleg áhrif á líkamlega og andlega líðan en einnig á samband við maka sem síðan getur verið áhrifavaldur varðandi kynlíf og gæði lífsins.

Krabbameinsmeðferð

Krabbameinsmeðferð hefur áhrif á sjálfsímynd

Það getur verið mismunandi hversu mikil áhrif eru á líkamsímynd kvenna. Fram kom í kanadískri rannsókn að um 88% kvenna sem fengu meðferð við brjóstakrabbameini lýstu einhverri óánægju með útlit eigin líkama. Brjóstin gegna mikilvægu hlutverki í líkamsímynd kvenna og skipta þau sérstaklega miklu máli varðandi kvenleika, fegurð og kynþokka. Hafa sumar konur lýst því að vera „hálfar konur“ eftir að búið var að fjarlægja annað brjóstið. Sumum konum getur fundist þær ekki vera eins kvenlegar og aðlaðandi í augum annarra og sérstaklega gagnvart þeim sem konan laðast að kynferðislega. Samkvæmt sænskri langtímarannsókn sem náði yfir tveggja ára tímabil kom í ljós að konur sem fóru í brjóstnám upplifðu sig ekki eins aðlaðandi í lok rannsóknar.

Eiga erfitt með að njóta

Meðferð við brjóstakrabbameini getur haft veruleg áhrif á líf kvenna. Konur sem líta mjög neikvætt á eigin líkama og finnst þær þurfa að fela hann geta átt í erfiðleikum með að njóta kynlífs. Í stað þess að vera í núinu og njóta stundarinnar saman þá getur kona sem hefur skömm á eigin líkama ekki leyft sér að njóta. Fyrrnefnd sænsk rannsókn leiddi í ljós að konur greindu síður frá vellíðan á meðan á kynmökum stóð. Athöfnin er því ekki orkugefandi og ánægjuleg heldur elur á óvissu og efasemdum gagnvart eigin líkama.

Krabbameinsmeðferð getur dregið úr kynlöngun

Konur sem fara í lyfjameðferð geta átt í erfiðleikum með að örvast, upplifa þurrk í leggöngum, sársauka við samfarir og erfiðleika með fullnægingu. Ein kona lýsti svona takmarkaðri kynlöngun: „Þetta er það síðasta sem mér dettur í hug þegar ég er með verki á brjóstsvæði, hef misst hárið, er þreytt og ekki aðlaðandi“. Eins og lýsingin gaf til kynna þá er löngun kvenna stundum mjög lítil en það getur þó verið misjafnt og fer eftir mörgum þáttum. Í ljós kom í kanadískri rannsókn að um 17% kvenna sem fóru í meðferð við brjóstakrabbameini sögðust ekki hafa neinn áhuga, flestar höfðu smá til meðal áhuga en mun færri höfðu nokkurn til mjög mikinn áhuga.

Snýst ekki bara um samfarir

Í yfirliti yfir rannsóknir á tímabilinu 1998-2010 þar sem skoðuð voru áhrif brjóstakrabbameins á kynlíf kvenna kom í ljós að flestir rannsakendur takmörkuðu sig við virkni í samförum. Einstaka rannsóknir skoðuðu aðra þætti eins og líkamlega nánd, aðrar kynferðislegar athafnir og tjáskipti. Nauðsynlegt er að skoða þessa þætti og fleiri þætti kynlífs eins og fróun, faðmlag og tilfinningalega nánd sem skipta miklu máli varðandi skynjun konunnar á því að vera elskuð4. En upplifun kvenna af eigin útliti og möguleiki þeirra að lifa heilbrigðu ástarlífi er einnig háð því parasambandi sem konan er í. 

Mikilvægt að hlúa að parasambandinu

Fram kom í ástralskri rannsókn meðal 1999 kvenna að 24% þeirra sögðu að meðferð við brjóstakrabbameini hefði haft mjög mikil áhrif á þeirra parasamband, 26% töluverð, 32% nokkuð og 15% ekki nein4. Þegar maki er tilbúinn að sýna skilning gagnvart breytingum á líkamsútliti konunnar og líðan hennar almennt eru líkur á því að konunni líði betur og það stuðli að kynheilbrigði1,4. Það sem skiptir meginmáli varðandi aðlögun beggja aðila í parasambandi að breyttum aðstæðum eftir meðferð við brjóstakrabbameini er að geta rætt saman um tilfinningar sínar og langanir. Einnig getur það verið hjálplegt að heilbrigðisstarfsfólk ræði þessi mál við konur og pör sem fara í gegnum krabbameinsmeðferð en rannsóknir sýna að efla má þann þátt heilbrigðisþjónustunnar.

Heimildir:

  1. Emilee, G. Ussher, J.M og Perz, J. (2010). Sexuality after breast cancer: A review. Maturitas, 66, 397-407. Sótt af https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/20439140

  2. Boquire, V.M., Esplen, M.J., Wong, J., Toner, B., Warner, E. og Malik, N. (2016). Sexual functioning in breast cancer survivors experiencing body image disturbance. Psycho-Oncology, 25, 66-76. DOI: 10.1002/pon.3819

  1. Fallbjörk, U., Rasmussen, B.H., Karlsson, S. og Salander, P. (2013). Aspects of body image after mastectomy due to breast cancer- A two-year follow-up study. European Journal of Oncology Nursing, 17, 340-345. http://dx.doi.org/10.1016/j.ejon.2012.09.002

  1. Ussher, J.M., Perz, J. og Gilbert, E. (2012). Changes to sexual well-being and intimacy after breast cancer. Cancer Nursing, 35(6), 456-465. DOI: 10.1097/NCC.0b013e3182395401

 

Tengdar greinar

Kynlíf á meðgöngu og eftir fæðingu

samfarir og óþægindi á kynfærum

Sæðisvökvi – Óþægindin eftir samfarir sem erfitt er að tala um

 

Tengdar vörur frá Florealis

Smaronia – Þurrkur í leggöngum

Liljonia – Óþægindi í leggöngum

Rosonia – Óþægindi á kynfærasvæði

 

Uncategorized @is

Mígreni 101

apríl 5, 2019

Mígreni er eitt algengasta heilsufarsvandamál í heimi. Það er ein helsta ástæða vinnutaps hjá fólki en sumir missa allt að 3-5 daga úr vinnu á mánuði vegna mígrenis. Á sama tíma þá er ekki alltaf skilningur fyrir þessu ástandi sem getur bæði haft áhrif á lífsgæði fólks og árangur í starfi. Hér kemur fyrsti pistillinn í pistlaröðinni okkar um mígreni sem er unnin í tengslum við Glitinum, viðurkennt jurtalyf sem fyrirbyggir mígreni.

mígreni glitinum

Hvað er mígreni?

Mígreni er flókinn taugasjúkdómur með sterkan erfðaþátt og er sérstaklega algengur á meðal kvenna. Það er ekki að fullu vitað hver orsökin og meingerðin eru þó svo að nokkrar tilgátur hafi komið fram. Mígreni einkennist af endurteknum höfuðverkjaköstum með miklum sársauka öðru megin í höfði. Höfuðverkurinn versnar oftast við álag eða hreyfingu og er gjarnan sláandi líkt og púls. Mjög algengt er að finna fyrir ógleði og jafnvel kasta upp á meðan á mígrenikastinu stendur. Margir verða einnig næmir fyrir ljósi og hljóði. Mígreniköst vara oftast í 6 – 72 klst og fólk er oft rúmliggjandi  og mjög kvalið á meðan á þeim stendur. Sumir fá mígreni með áru en ára er einskonar röskun á skynjun eða sjón t.d. að sjá skyndilega eldglæringar eða stjörnur. Ekki allir mígrenisjúklingar fá áru og því er mígreni oftast flokkað sem mígreni með eða án áru. Greining á mígreni er fyrst og fremst byggð á heilsufarssögu viðkomandi.

Er hægt að lækna mígreni?

Engin lækning er til við mígreni en sjúkdómurinn er aðalega meðhöndlaður með lyfjum sem eiga að stytta mígreniköst og draga úr sársauka eða með lyfjum sem eru ætluð til að fyrirbyggja mígreniköst og lengja tímann á milli þeirra. Fyrirbyggjandi meðferð er gefin jafnvel þó svo að höfuðverkir séu ekki til staðar. Þetta er gert til að draga úr tíðni og alvarleika mígrenikasta. Þá geta fyrirbyggjandi meðferðir einnig aukið svörun við öðrum mígrenilyfjum sem eru notuð þegar kast kemur.

Hvað veldur mígreni?

Ekki er að fullu vitað hvað veldur mígreni. Upprunalega var talið að mígreni orsakaðist af æðasamdrætti í heila. Nú er mígreni hinsvegar talið vera fyrst og fremst taugasjúkdómur og breytingar á blóðflæði um heilann eitt af einkennum. Rannsóknir hafa leitt í ljós að einstaklingar með mígreni hafa frekar háa taugaspennu í miðtaugakerfi sem gerir þá næmari fyrir áreiti sem getur sett mígrenikast af stað. Mígrenikastið er oftast bundið við annan helming höfuðsins. Talið er að köstin byrji með staðbundinni afskautun taugafruma sem að síðan breiðist út yfir stærra svæði. Þetta ferli virkjar sársaukanema sem koma höfuðverknum af stað. Virkjun á sársaukanemum örvar síðan losun boðefna og sameinda sem valda enn frekari sársauka og losun bólguefna. Þá eru viðtakar serotóníns einnig taldir spila lykilhlutverk en mörg mígrenilyf sem gefa góðan árangur virka á þessa viðtaka í heila.

Hverjir fá mígreni?

Um 70% allra með mígreni eiga nákominn ættingja með mígreni. Mígreni byrjar oft að koma fram snemma hjá drengjum en seinna hjá stúlkum eða á unglingsaldri. Þá eru stúlkur mun líklegri en drengir til að fá mígreni en um 18% kvenna eru með mígreni samanborið við 6% karlmanna. Mígreni er ólæknandi sjúkdómur en það er þó bót í mála að ástandið virðist eldast af fólki þar sem að köstum fækkar eftir 40 ára. Ýmislegt er hægt að gera til að draga úr líkum á kasti t.d. að forðast þekkta mígrenivalda sem geta komið kasti af stað. Mígrenivaldar eru til dæmis hormónabreytingar, stress, óreglulegur svefn, lyfjanotkun, skortur á hreyfingu, rauðvín og kaffi.

 

Tengdar greinar

svefn og kvíði

5 staðreyndir um svefn, heilsu og hamingju

svefn og kvíði

Hvernig hefur svefn áhrif á líkamlega og geðræna heilsu?

 

Tengdar vörur frá Florealis

glitinum

Glitinum – Fyrirbyggir mígreni

Sefitude

Sefitude – við vægum kvíða og svefnvanda

Uncategorized @is

Af hverju eru rauðar rósir rómantískar?

febrúar 13, 2019

,, Með þér er veturinn kertaljós, koss og stök rós.” segir í ástarljóðinu Með þér eftir Bubba Morthens. Það er fátt eins rómantískt og að fá rauðar rósir að gjöf. Þær eru hluti af náttúrunni, tákna ástina sjálfa og geta læknað hjartasár. Rósir eru eitt elsta tákn ástarinnar og hefur fegurð þeirra verið dásömuð í gegnum tíðina, enda eru þær taldar öðrum blómum fremri.  En hvers vegna?

Rósir hafa vaxið villtar í náttúrunni í um 35 milljónir ára og til eru fjölmargar tegundir og afbrigði af þeim. Þessi fallegu blóm hafa fylgt mannkyninu frá upphafi en ekki er vitað með vissu hvenær menn fóru að tengja saman ást og rósir. Elstu heimildirnar eru frá því um 1600 fyrir Krist.

Rósir áttu alveg sérstakan sess hjá Rómverjum en sagan segir að ríkir Rómverjar hafi notað rósablöð til að skreyta rúm sín áður en þeir nutu ásta. Það gerðu þeir til að útbúa mjúkan og ilmandi flöt til að elskast á. Að veltast um í rósablöðum voru mikil hlunnindi því rósir í Rómarveldi blómguðust eingöngu í skamman tíma snemma sumars og tækifærin til ilmandi athafna fá.  Þegar hin sýrlenska Damaskus rós var uppgötvuð og flutt til Rómar varð mikil bylting. Damaskus rósin blómstraði bæði vor og haust sem gerði Rómverjum kleift að njóta ásta á rósabeði tvisvar á ári. Rósirnar þóttu mjög dýrmætar og eingöngu á færi hástéttarinnar að leyfa sér slíkan munað.

Það kemur ekki á óvart að rósir hafi verið tileinkaðar gyðjum ástar og frjósemi, þeim Afródítu í grískum fræðum og Venus í þeim rómversku. Rósir táknuðu reyndar bæði ástir og leyndarmál. Veggir og loft húsa voru gjarnan skreytt með rósum til að minna á að það sem færi fram innan þessara veggja ætti ekki að fara lengra. Þaðan er máltækið ,,að tala undir rós” líklega komið og þýðir að gefa eitthvað í skyn.

Tenging ástarinnar við rauðar rósir hefur lifað í gegnum aldirnar og er að finna skírskotun í þær í flestum menningum. Rauðar rósir birtast í mörgum myndum í listasögu mannkynsins hvort sem það er á veggmyndum frá 1600 fyrir Krist eða í leikritum Shakespears. Í frönskum ljóðum á miðöldum fóru rósir að tákna kynhvöt kvenna og lifði sú táknmynd inn í bókmenntir endurreisnarinnar.

Merking rósa eins og hún birtist í dag á hins vegar rætur sínar að rekja til viktoríutímabilsins. Á þeim tíma þótti ekki við hæfi að hafa orð á tilfinningum sínum og því voru blóm ein leið til að tjá sig án þess þó að segja neitt. Því varð fólk mjög upptekið af merkingu blóma þar sem að hver litur fékk sína merkingu. Rauður fyrir ástina og gulur fyrir vináttu eru þekkt dæmi. Þessi hefði hefur haldist til dagsins í dag þar sem að fátt þykir rómantískara en að gefa þeim sem maður elskar rauðar rósir. Rósin er tákn þess að elska og að vera elskaður.