Heilbrigðiskerfið

Hvað er sýklalyfjaónæmi?

nóvember 15, 2019

Sýklalyfjaónæmi er þegar bakteríur verða ónæmar fyrir sýklalyfjum. Þá duga lyfin ekki til að drepa bakteríurnar og þær geta valdið alvarlegum sýkingum óáreittar. Bakteríur búa yfir þeim eiginleika að geta aðlagað sig að umhverfinu. Ef sýklalyf eru að staðaldri í umhverfi þeirra geta þær þróað með sér varnir gegn lyfjunum. Það dugir að fáar bakteríur í hópnum læri að verjast sýklalyfjum því þær geta flutt upplýsingar um það á milli sín. Þannig getur ofnotkun á sýklalyfjum aukið líkurnar á því að bakteríurnar þrói með sér varnir og þá hætta lyfin að virka.

Þegar sýklalyf komu fyrst fram um miðja síðustu öld var sýklalyfjaónæmi óþekkt. Mikil notkun á þeim síðan, bæði í læknisfræði og landbúnaði, hefur valdið því að fjölmargar tegundir baktería eru nú orðnar ónæmar. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin metur þetta sem eina stærstu ógnina við heilbrigði í dag. Útbreiðsla á ónæmum bakteríutegundum getur leitt til mannskæðra faralda sem við eigum enga lækningu við.

Það er nauðsynlegt að draga úr notkun sýklalyfja eins og hægt er til að stemma stigu við fjölgun ónæmra stofna baktería. Best er að reyna að fyrirbyggja sýkingar eða nota aðrar leiðir til að meðhöndla vægar sýkingar áður en þær komast á það stig að sýklalyfja gerist þörf.

Hér eru nokkur ráð sem við getum öll tileinkað okkur til að leggja baráttunni lið:

1. Notaðu bara sýklalyf þegar þeirra gerist raunverulega þörf

Ekki nota sýklalyf í fyrirbyggjandi tilgangi eða þegar þú veist ekki hvort þú sért með sýkingu eða ekki. Sýklalyf skal bara nota þegar er sterkur grunur um raunverulega bakteríusýkingu.

2. Ekki krefjast sýklalyfja telji læknir þess ekki þörf

Sýklalyf virka bara á bakteríur. Lyfin virka ekki á veirusýkingar eins og flensu og kvef.

3. Kláraðu sýklalyfjaskammtinn þinn og farðu eftir leiðbeiningum

Það er mikilvægt að klára allan sýklalyfjaskammtinn sinn til að vinna örugglega bug á sýkingunni. Ef skammturinn er ekki kláraður aukast líkur á því að bakteríurnar  þrói með sér ónæmi gegn lyfjunum.

4. Ekki gefa öðrum afgang af sýklalyfjunum þínum

Ef þú átt afgang af sýklalyfjum skaltu koma þeim til næsta apóteks til förgunnar. Telji vinir og vandamenn sig vera með sýkingu ættu þeir að leita til læknis

5. Komdu í veg fyrir sýkingar með góðu hreinlæti

Forvörnin er besta vörnin hér. Þvoðu þér reglulega um hendur, sérstaklega áður en farið er að borða.

6. Forðastu að umgangast veikt fólk

Forðastu fólk sem getur verið smitandi og komdu þannig í veg fyrir að þú veikist. Ef þú ert veik skaltu vera heima til að smita ekki aðra t.d. á vinnustaðnum.

7. Hugaðu að hreinlæti við matargerð

Þvoðu grænmeti og ávexti áður en það er borðað og notaðu hrein skurðarbretti og áhöld við matseld.

8. Farðu í bólusetningar

Með því að fara í bólusetningu getur þú komið í veg fyrir að þú veikist og smitir síðan aðra.

 

Höf: Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch, doktor í líf- og læknavísindum

 

Tengdar vörur frá Florealis

lyngonia

Lyngonia – Við endurteknum þvagfærasýkingum

 

 

 

Heilbrigðiskerfið

Spjall um sögu og eiginleika jurtalyfja

október 24, 2018

Dr. Elsa S. Halldórsdóttir þróunarstjóri spjallaði við Sigmund Erni Rúnarsson í þættinum 21 á Hringbraut um sögu og eiginleika jurtalyfja. Fróðlegt og áhugavert viðtal:

Heilbrigðiskerfið

Skipta jurtalyf máli?

október 3, 2018

Í nokkurn tíma hefur Íslendingum verið tíðrætt um vanda heilbrigðiskerfisins og í hverri viku má finna fréttir af óánægðum notendum jafnt sem heilbrigðisstarfsmönnum. Rætt er um mönnunarvanda, skort á fjármagni, mikið álag á mörgum stofnunum og langan biðtíma. Umræðan hefur því miður verið á frekar neikvæðum nótum.

 

Í heilbrigðiskerfi sem er undir miklu álagi geta vægari sjúkdómar og einkenni fengið minni athygli en ella. Ef hægt er að hefja meðhöndlun fyrr er oft hægt að koma í veg fyrir að sjúkdómar vindi upp á sig og verði að alvarlegum sjúkdómum. Jurtalyf geta skipað mikilvægan sess þegar um vægari sjúkdóma er að ræða, sér í lagi þar sem algengi vægra sjúkdóma er að aukast og fólk leitar í enn meira mæli til sjálfsmeðhöndlunar.

Það er mikilvægt að halda á lofti jákvæðri þróun og benda á nýjar leiðir til að viðhalda heilbrigði. Eitt skref í þá átt var tekið árið 2011 þegar Evrópska lyfjamálastofnunin innleiddi nýja reglugerð sem gerði lyfjafyrirtækjum kleift að skrá jurtalyf eftir sambærilegum leiðum og önnur lyf.

 

Fólk hefur notað jurtir og náttúruna til lækninga frá árdögum og er augljóst að jurtir innihalda virk efni sem vinna gegn fjölbreyttum einkennum og sjúkdómum. Jurtalyf brúa það stóra bil sem hefur verið á milli hefðbundinna lyfja og fjölda náttúruvara (þ.e. fæðubótarefna) sem eru á markaði. Jurtalyf veita meðhöndlun við vægari sjúkdómum og hafa vægari aukaverkanir en hefðbundin lyf. Þessi lyf geta skipt sköpum þegar kemur að því að draga úr notkun lyfja sem hafa óæskileg áhrif til lengri tíma, svo sem sýklalyfja og ávanabindandi svefn- og róandi lyfja svo dæmi séu tekin.

 

Jákvæð þróun hefur átt sér stað undanfarin ár þar sem fólk er meðvitaðara um hvað það er að taka inn, sem er mjög mikilvægt í meðhöndlun sjúkdóma eða sjúkdómseinkenna. Það er mikilvægt er að þekkja muninn á náttúruvörum annars vegar (fæðubótarefnum) og jurtalyfjum hins vegar þar sem mikill munur er á verkun og gæðum.

 

Jurtalyf eru mikilvægur þáttur heilbrigðiskerfisins, þau beisla eiginleika náttúrunnar til að bæta heilsu og líðan fólks. Jurtalyf eru viðurkennd lyf, með þeim er hægt að hefja meðhöndlun áður en ástandið þróast yfir í alvarlegri sjúkdóma og hægt er að draga úr notkun lyfja sem hafa alvarlegri aukaverkanir.

 

Aðeins þrjú jurtalyf hafa hlotið skráningu hér á landi (í september 2018) sem þýðir að allar aðrar náttúruvörur á markaði flokkast sem fæðubótarefni eða snyrtivörur. Fleiri jurtalyf munu bætast í þennan hóp á næstu misserum sem hjálpa fólki að takast á við væga sjúkdóma og bæta lífsgæði sín.