Sýklalyfjaónæmi er þegar bakteríur verða ónæmar fyrir sýklalyfjum. Þá duga lyfin ekki til að drepa bakteríurnar og þær geta valdið alvarlegum sýkingum óáreittar. Bakteríur búa yfir þeim eiginleika að geta aðlagað sig að umhverfinu. Ef sýklalyf eru að staðaldri í umhverfi þeirra geta þær þróað með sér varnir gegn lyfjunum. Það dugir að fáar bakteríur í hópnum læri að verjast sýklalyfjum því þær geta flutt upplýsingar um það á milli sín. Þannig getur ofnotkun á sýklalyfjum aukið líkurnar á því að bakteríurnar þrói með sér varnir og þá hætta lyfin að virka.

Þegar sýklalyf komu fyrst fram um miðja síðustu öld var sýklalyfjaónæmi óþekkt. Mikil notkun á þeim síðan, bæði í læknisfræði og landbúnaði, hefur valdið því að fjölmargar tegundir baktería eru nú orðnar ónæmar. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin metur þetta sem eina stærstu ógnina við heilbrigði í dag. Útbreiðsla á ónæmum bakteríutegundum getur leitt til mannskæðra faralda sem við eigum enga lækningu við.

Það er nauðsynlegt að draga úr notkun sýklalyfja eins og hægt er til að stemma stigu við fjölgun ónæmra stofna baktería. Best er að reyna að fyrirbyggja sýkingar eða nota aðrar leiðir til að meðhöndla vægar sýkingar áður en þær komast á það stig að sýklalyfja gerist þörf.

Hér eru nokkur ráð sem við getum öll tileinkað okkur til að leggja baráttunni lið:

1. Notaðu bara sýklalyf þegar þeirra gerist raunverulega þörf

Ekki nota sýklalyf í fyrirbyggjandi tilgangi eða þegar þú veist ekki hvort þú sért með sýkingu eða ekki. Sýklalyf skal bara nota þegar er sterkur grunur um raunverulega bakteríusýkingu.

2. Ekki krefjast sýklalyfja telji læknir þess ekki þörf

Sýklalyf virka bara á bakteríur. Lyfin virka ekki á veirusýkingar eins og flensu og kvef.

3. Kláraðu sýklalyfjaskammtinn þinn og farðu eftir leiðbeiningum

Það er mikilvægt að klára allan sýklalyfjaskammtinn sinn til að vinna örugglega bug á sýkingunni. Ef skammturinn er ekki kláraður aukast líkur á því að bakteríurnar  þrói með sér ónæmi gegn lyfjunum.

4. Ekki gefa öðrum afgang af sýklalyfjunum þínum

Ef þú átt afgang af sýklalyfjum skaltu koma þeim til næsta apóteks til förgunnar. Telji vinir og vandamenn sig vera með sýkingu ættu þeir að leita til læknis

5. Komdu í veg fyrir sýkingar með góðu hreinlæti

Forvörnin er besta vörnin hér. Þvoðu þér reglulega um hendur, sérstaklega áður en farið er að borða.

6. Forðastu að umgangast veikt fólk

Forðastu fólk sem getur verið smitandi og komdu þannig í veg fyrir að þú veikist. Ef þú ert veik skaltu vera heima til að smita ekki aðra t.d. á vinnustaðnum.

7. Hugaðu að hreinlæti við matargerð

Þvoðu grænmeti og ávexti áður en það er borðað og notaðu hrein skurðarbretti og áhöld við matseld.

8. Farðu í bólusetningar

Með því að fara í bólusetningu getur þú komið í veg fyrir að þú veikist og smitir síðan aðra.

 

Höf: Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch, doktor í líf- og læknavísindum

 

Tengdar vörur frá Florealis

lyngonia

Lyngonia – Við endurteknum þvagfærasýkingum