Djöflakló (Harpagophytum procumbens) er ættuð frá suður- og suðvestur-Afríku og hefur verið notuð þar af innfæddum við meltingartruflunum, sem hægðalosandi, við blóðkvillum, hitastillandi, verkjastillandi sem og við sárameðferð. Fyrstu notkun plöntunnar í hinum vestræna heimi má rekja til upphafs 20. aldar en hún fór að verða algengari í Evrópu um miðja 20. öldina.
Vísindamenn uppgötvuðu fljótt virkni plöntunnar gegn gigt og á áttunda áratugnum annaði framboð ekki eftirspurn. Nafn sitt dregur jurtin af göddum ávaxtarins sem festir sig við klær dýra og getur valdið skaða þegar dýrið reynir að losa sig við hann. Efri hluti rótarhnýðis er notaður við lyfjagerð. Enskt heiti jurtarinnar er devil’s claw.
Viðurkennd notkun | a. Við vægum gigtarverkjum. b. Meltingarfæraóþægindum eins og uppþembu og lystarleysi. Notkun lyfsins er háð því hvernig það er unnið úr plöntunni. |
Aukaverkanir | Óþægindi frá meltingarvegi: niðurgangur, ógleði, uppköst, magaverkur. Einkenni frá miðtaugakerfi: höfuðverkur og svimi. Húðeinkenni: ofnæmisviðbrögð. |
Meðganga og brjóstagjöf | Ekki er mælt með því að taka lyfið á meðgöngu eða með barn á brjósti. |
Milliverkanir | Engar þekktar. |
Varúðarorð | Lyfið er ekki ætlað börnum yngri en 18 ára. Ef gigtverkjum fylgja bólgur í liðum, roði eða hiti er mælt með að hafa samband við lækni. Sjúklingar með maga- eða skeifugarnarsár ættu ekki að nota djöflakló. Einnig ættu sjúklingar með hjarta- og æðasjúkdóma að gæta sérstakrar varúðar þegar djöflakló er notuð. |
Ofskömmtun | Engin skráð tilfelli. |
Klínískar rannsóknir
Djöflakló hefur talsvert verið rannsökuð og hafa verið gerðar yfir 20 klínískar rannsóknir á henni. Flestar rannsóknir hafa kannað virkni jurtarinnar á gigt og mjóbaksverki. Niðurstöður sýna að jurtin er áhrifameiri en lyfleysa en mælt er með frekari rannsóknum til að ákvarða réttar skammtastærðir sem og hvert sé í raun virka innihaldsefnið.
Heimildir:
Pharmaceutical Press Editorial Team. 2013. Herbal Medicines, 4th Edition. Pharmaceutical Press, London, UK