Verkir og bólgur

Fimm leiðir til að draga úr liðverkjum

nóvember 6, 2018

Verkir í liðum eru á meðal algengustu vandamála stoðkerfisins. Verkirnir geta komið fram í öllum liðum eins og til dæmis í hnjám, ökklum, mjöðmum og fingrum. Í sumum tilfellum vara verkirnir í skamman tíma en þegar liðirnir eru orðnir varanlega hnjaskaðir þá geta verkir varað til langs tíma.  Orsakirnar geta verið af ýmsum toga en margs konar sjúkdómar valda liðverkjum og má þar nefna slitgigt, iktsýki (liðagigt) og þvagsýrugigt. Þar fyrir utan getur hvers kyns hnjask og langvarandi álag einnig valdið verk í lið. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir ástæðum verkjanna. Ef um gigt er að ræða þá er alltaf mikilvægt að vera í samráði við gigtarlækni eða heimilislækni. Liðverkir eru mjög hvimleiðir og hamlandi en það er mikilvægt að vinna með vandamálið og hætta ekki að hreyfa sig.

Ýmislegt er hægt að gera til að draga úr og koma í veg fyrir liðverki. Þar skiptir mestu að stunda létta hreyfingu og draga úr álagi á liðina, til dæmis með því að styrkja vöðvana í kring. Séu verkir það miklir að þeir dragi úr hreyfigetu þá eru til verkjastillandi lausnir. Algengast eru að nota bólgueyðandi verkjalyf sem slá á liðverki og geta þau hentað til skamms tíma. Það ætti þó að forðast notkun slíkra lyfja til lengri tíma þar sem að þeim geta fylgt töluverðar aukaverkanir eins og þynning á slímhúð í maga, hjarta- og æðavandamál og aukin áhætta á blæðingum í t.d. maga.

 

Þeir sem þurfa verkjastillingu til lengri tíma á meðan hreyfigeta er aukin geta tekið jurtalyfið Harpatinum frá Florealis. Lyfið er er sérstaklega ætlað til draga úr verkjum í liðum og mjóbaki og til að minnka morgunstirðleika. Harpatinum er unnið úr rót djöflaklóar (Harpagophytum procumbens) og hefur verið notað lengi í Evrópu. Það er hinsvegar nýr kostur á Íslandi. Harpatinum er eina lyfið úr djöflakló sem hefur viðurkennda virkni gegn liðverkjum og meltingaróþægindum. Lyfið getur því hentað þeim sem þola önnur lyf illa vegna aukaverkana á maga og meltingu.

 

Harpatinum hentar vel til að draga úr verkjum í liðum og auka hreyfigetu, en létt hreyfing er meðal þeirra atriða sem skipta mestu máli til að draga úr verkjum í liðum til lengri tíma og vinna þannig bug á vandamálinu.

 

Hér eru fimm almenn atriði sem allir geta tileinkað sér til að draga úr verkjum og með auka þar með lífsgæði og haldið sér á hreyfingu.

  1. Styrktu vöðvana í kringum liðina

Hlutverki vöðvanna er að hreyfa útlimi og veita liðamótum stöðugleika. Það er mikilvægt að vöðvarnir í kringum stærstu liðina séu vel í stakk búnir til að halda liðunum stöðugum og taka hluta af álaginu sem myndast við hreyfingu. Ef vöðvarnir eru sterkir léttir það álaginu af brjóski, beinum og liðböndum í liðunum.

 

Sá liður sem flestir finna til í er hnéliðurinn. Verkir í hnjám eru oft ástæða þess að fólk hættir að stunda áhugamál eins og gönguferðir, hlaup, blak eða aðrar tómstundir sem krefjast álags á hnén. Með því að styrkja lærvöðvana má minnka álagið á liðinn sjálfann og draga úr verkjum.

 

Þrjár einfaldar æfingar geta komið þér af stað:

  • Hnéréttur: Leggstu út af og settu upprúllað handklæði undir hnésbótina. Réttu rólega úr fætinum og spenntu vel lærvöðvana að framan og haltu spennunni í 3-5 sekúndur áður en þú slakar fætinum rólega niður. Endurtaktu þetta 15-20 sinnum á hvorum fæti.
  • Uppstig: Finndu stigaþrep (ekki verra að hafa handrið) og stígðu rólega upp á það og réttu alveg úr hnénu. Slakaðu þér svo rólega til baka. Endurtaktu 15-20 sinnum fyrir hvorn fót. Ef þú færð verk í hnéð getur þú létt á með því að nota handriðið. Reyndu að minnka smám saman hversu mikið þú togar með höndunum, þangað til að þú þarft ekki að styðja þig við.
  • Hnébeygjur: Stattu með u.þ.b. 20-30 cm á milli fóta. Hafðu stól (eða bekk ef þú ert utanhúss) fyrir aftan þig. Beygðu hnén rólega eins og þú ætlir að setjast á stólinn og slakaðu rassinum niður en réttu aftur úr þér um leið og rassinn snertir stólinn. Gerðu æfinguna rólega, spenntu kviðinn og settu hendurnar fram til að halda jafnvægi. Endurtaktu hnébeygjurnar í 15-20 skipti. Passaðu að halda bakinu beinu (ekki fetta of mikið) og ekki láta hnéð fara fram fyrir tærnar.

 

  1. Vertu í kjörþyngd

Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að ofþyngd getur stuðlað að auknu álagi á stóru liðina eins og mjaðmaliði, hnéliði og ökklaliði. Oft myndast vítahringur verkja og þyngdaraukningar þegar fólk hættir að hreyfa sig vegna verkja í liðum. Þann vítahring þarf að rjúfa og mikilvægur þáttur getur verið að komast sem næst kjörþyngd.

 

Mataræði er alltaf mikilvægast þegar við ætlum að létta okkur en hreyfingin getur komið okkur yfir erfiðasta hjallann.

 

  1. Kældu þig

Nú eru komin köld kör (oftast fiskikör full af ísköldu vatni) í flest allar sundlaugar landsins. Kæling dregur úr liðbólgum og því er tilvalið að dýfa sér í kalda karið, þótt ekki væri nema upp að mjöðmum.

 

Einnig hafa svokölluð skiptiböð verið góð leið til að draga úr stirðleika og verkjum í liðum. Þá er farið til skiptis í kalt og heitt vatn og eykur það blóðflæðið til þeirra svæði sem böðuð eru til skiptis.

 

  1. Hreyfðu þig

Ábatinn af fjölbreyttri hreyfingu er alltaf að koma betur og betur í ljós. Almennt er mælt með því að fullorðnir hreyfi sig að lágmarki í 30 mínútur á dag. Ekki er hreyfing aðeins góð fyrir hjarta- og æðakerfið heldur hefur hreyfing góð áhrif á geðheilsu, taugakerfi og auðvitað stoðkerfið. Ef fólk er með verki í liðum þarf að finna hreyfingu við hæfi.

 

Ef verkir eru í baki eða hnjám er best að hreyfingin sé með lágmarks höggálagi. Þá er gott að ganga, synda, gera sundleikfimi eða hjóla. Styrktaræfingar fyrir kvið, bak, mjaðmir, rass og læri geta skipt miklu máli fyrir stuðning við liðina.

 

Á undanförnum árum hafa æfingar á borð við jóga, pilates og tai chi orðið vinsælli hér á landi og má hiklaust mæla með þeim fyrir fólk með verki í liðum. Alltaf er þó best að ofgera sér ekki í byrjun heldur auka álagið jafnt og þétt og hafa góða meðvitund um hvaða æfingar gefa manni „góða þreytu“ og hvað æfingar ýfa upp sársauka í liðum sem ætti þá að forðast.

 

  1. Borðaðu rétt

Síðast en ekki síst er þekkt að mataræði getur haft áhrif á verki í liðum. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að með því að borða reglulega fiskmeti og taka lýsi daglega getur bætt heilsu liða. Mikilvægt er að borða fjölbreytta fæðu og fá næg steinefni og vítamín eins og t.d. D-vítamín sem er mikilvægt fyrir upptöku kalks úr fæðunni. Einnig er mikilvægt að borða grænmeti og ávexti á hverjum degi, takmarka saltneyslu og auðvitað draga úr sykurneyslu. Fjölbreytt og holl fæða eykur enn frekar líkurnar á því að við viðhöldum kjörþyngd sem aftur minnkar líkurnar á of miklu álagi á brjósk og bein í liðum.

 

Harpatinum er lausasölulyf og fæst án lyfseðils í flestum apótekum. Harpatinum er skráð jurtalyf sem hefð er fyrir og samþykkt af lyfjayfirvöldum. Nánari upplýsingar um lyfið er að finna á florealis.is og á www.serlyfjaskra.is
Gagnlegar upplýsingar:
Ráðlagður skammtur fyrir fullorðna er: 2 hylki 2 svar sinnum á dag.
Ekki nota Harpatinum ef þú ert með ofnæmi fyrir jarðhnetum eða soja, eða ert með sár í maga eða þörmum. Ef þú hefur gallsteina eða liðverki samhliða bólgum, roða eða hita, skaltu hafa samband við lækni áður en þú notar Harpatinum. Inniheldur laktósa, sorbitól, sojabaunaolíu og lesitín. Leitaðu til læknis ef þú finnur fyrir aukaverkunum eða ef einkenni eru viðvarandi eða hafa versnað eftir 2ja vikna notkun við vægum meltingartruflunum eða 4 vikna notkun við vægum gigtarverkjum. Hvorki ætlað börnum yngri en 18 ára né þunguðum konum eða konum með barn á brjósti. Geymið þar sem börn hvorki ná til né sjá og við lægra hitastig en 30°C.
Lesið vandlega upplýsingar á umbúðum og fylgiseðli fyrir notkun lyfsins. Leitið til læknis eða lyfjafræðings sé þörf á frekari upplýsingum um áhættu og aukaverkanir. Sjá nánari upplýsingar um lyfið á www.serlyfjaskra.is

 

Verkir og bólgur

Djöflakló (harpagophytum procumbens)

maí 3, 2018

Saga notkunar

Djöflakló (Harpagophytum procumbens) er ættuð frá suður- og suðvestur-Afríku og hefur verið notuð þar af innfæddum við meltingartruflunum, sem hægðalosandi, við blóðkvillum, hitastillandi, verkjastillandi sem og við sárameðferð. Fyrstu notkun plöntunnar í hinum vestræna heimi má rekja til upphafs 20. aldar en hún fór að verða algengari í Evrópu um miðja 20. öldina.

Vísindamenn uppgötvuðu fljótt virkni plöntunnar gegn gigt og á áttunda áratugnum annaði framboð ekki eftirspurn. Nafn sitt dregur jurtin af göddum ávaxtarins sem festir sig við klær dýra og getur valdið skaða þegar dýrið reynir að losa sig við hann. Efri hluti rótarhnýðis er notaður við lyfjagerð. Enskt heiti jurtarinnar er devil’s claw.

 

Viðurkennd notkun a. Við vægum gigtarverkjum.
b. Meltingarfæraóþægindum eins og uppþembu og lystarleysi.
Notkun lyfsins er háð því hvernig það er unnið úr plöntunni.
Aukaverkanir Óþægindi frá meltingarvegi: niðurgangur, ógleði, uppköst, magaverkur.
Einkenni frá miðtaugakerfi: höfuðverkur og svimi.
Húðeinkenni: ofnæmisviðbrögð.
Meðganga og brjóstagjöf Ekki er mælt með því að taka lyfið á meðgöngu eða með barn á brjósti.
Milliverkanir Engar þekktar.
Varúðarorð Lyfið er ekki ætlað börnum yngri en 18 ára.
Ef gigtverkjum fylgja bólgur í liðum, roði eða hiti er mælt með að hafa samband við lækni.
Sjúklingar með maga- eða skeifugarnarsár ættu ekki að nota djöflakló. Einnig ættu sjúklingar með hjarta- og æðasjúkdóma að gæta sérstakrar varúðar þegar djöflakló er notuð.
Ofskömmtun Engin skráð tilfelli.

 

Klínískar rannsóknir

Djöflakló hefur talsvert verið rannsökuð og hafa verið gerðar yfir 20 klínískar rannsóknir á henni. Flestar rannsóknir hafa kannað virkni jurtarinnar á gigt og mjóbaksverki. Niðurstöður sýna að jurtin er áhrifameiri en lyfleysa en mælt er með frekari rannsóknum til að ákvarða réttar skammtastærðir sem og hvert sé í raun virka innihaldsefnið.

 

Heimildir:

Pharmaceutical Press Editorial Team. 2013. Herbal Medicines, 4th Edition. Pharmaceutical Press, London, UK

Lyfjaforskrift Evrópsku lyfjamálastofnunarinnar

Matsskýrsla Evrópsku lyfjamálastofnunarinnar