Í Grimms-ævintýrum er fræg sagan af stúlkunni Garðabrúðu sem hlaut þau grimmilegu örlög að vera gefin af foreldrum sínum grimmri norn sem lokaði hana inni í háum turni þar sem hún fékk ekki að hitta neinn. Móðir stúlkunnar var svo sólgin í jurtina garðabrúðu á meðgöngunni að hún sendi föðurinn í garð nornarinnar til að sækja knippi. Hann var staðinn að verki og lofaði norninni að hún mætti eiga ófædda barnið ef hann bara mætti taka svolítið af garðabrúðu handa konu sinni. Það hefur sennilega verið dýrasta verð í sögunni fyrir lækningajurtir.

Garðabrúða er fáanleg á Íslandi  undir heitinu Sefitude en það er viðurkennt jurtalyf unnið úr rót garðabrúðu og er ætlað til að draga úr vægum kvíða og svefntruflunum. Lyfið er fáanlegt án lyfseðils í öllum helstu apótekum og er mikið notað af fólki sem á erfitt með svefn.Garðabrúða (valeriana officinalis)

 

Notkun garðabrúðu (Valeriana officinalis) má rekja allt aftur til 5. aldar fyrir Krist þegar fylgjendur Hippókratesar notuðu jurtina við því sem kallaðist ,,móðursýki”. Til eru heimildir um notkun garðabrúðu við svefnleysi á annarri öld eftir Krist. Á miðöldum var jurtin notuð við margvíslegum kvillum svo sem bakverkjum, hósta, augnkvillum og jafnvel plágunni. Garðabrúða hefur róandi, verkjastillandi, svæfandi, verk- og vindeyðandi og krampaeyðandi áhrif. Jarðstöngull og rót jurtarinnar eru þeir hlutar sem eru nýttir til lyfjagerðar.

Klínískar rannsóknir

Áhrif garðabrúðu á svefnraskanir og svefnmynstur hafa verið töluvert rannsökuð. Erfitt er að túlka með afgerandi hætti niðurstöður rannsóknanna því þær hafa notað mismunandi lyfjablöndur og skammtastærðir auk þess sem sumar þeirra nota heilbrigða einstaklinga en aðrar fólk með svefnraskanir. Þó hafa flestar rannsóknirnar sýnt fram á róandi áhrif lyfjablöndu með virkum efnum garðabrúðu þegar hún er borin saman við lyfleysu (placebo). Eiga þær niðurstöður bæði við huglægt mat einstaklinga og hlutlægar mælingar á svefnmynstrum.

 

Heimildir:

Pharmaceutical Press Editorial Team. 2013. Herbal Medicines, 4th Edition. Pharmaceutical Press, London, UK

Lyfjaforskrift Evrópsku lyfjamálastofnunarinnar

Matsskýrsla Evrópsku lyfjamálastofnunarinnar

 

Tengdar vörur

Sefitude

Sefitude – við kvíða og svefntruflunum