Höfundur: Dr. Erla Björnsdóttir, sálfræðingur og doktor í líf- og læknavísindum

Í hnotskurn:

  • Svefn tengist bæði líkamlegri og andlegri heilsu
  • Svefnleysi eykur líkur á langvinnum sjúkdómum og ofþyngd
  • Svefnskortur hefur bein áhrif á hungurhormón og bólguefni í blóði
  • Streita er helsta ástæða svefnleysis
  • Kvíði og svefnleysi mynda vítahring sem er mikilvægt að rjúfa

Við sofum um þriðjung ævinnar. Nægur svefn hefur jákvæð áhrif á líðan okkar og svefn  er nátengdur bæði líkamlegri og andlegri heilsu. Tengsl svefns við heilsu geta þó verið flókin þar sem oft getur verið erfitt að átta sig á orsök og afleiðingu.

 

Fólk sem er heilbrigt á líkama og sál sefur oftast vel. Líkamleg og geðræn vandamál hafa hinsvegar oft neikvæð áhrif á svefninn, sérstaklega ef um langvinnan heilsubrest, kvíða eða verki er að ræða. Slíkt getur leitt til svefnvandamála sem síðan hafa neikvæð áhrif á heilsuna þannig að vítahringur skapast.

 

Með því að bæta svefn má því oft auka lífsgæði og bæta heilsu hjá þeim sem glíma við líkamleg og andleg vandamál.

 

 

Langvarandi svefnleysi eykur líkur á ofþyngd

Svefnskortur hefur gjarnan þau áhrif að fólk sækir í auknum mæli í óhollari og orkuríkari mat. Við svefnskort verður brenglun á framleiðslu hungurhormónanna leptíns og ghrelins.

 

Leptín er hormón sem vinnur gegn matarlyst með því að senda heilanum þau skilaboð að hann sé orðinn saddur. Skertur svefn dregur úr magni leptíns í blóðinu og eykur þannig matarlyst. Grehlin er annað hormón sem hefur þau áhrif að matarlyst eykst og hjá vansvefta fólki má sjá aukið magn grehlins í blóðinu.

 

Þannig borðum við meira og oft óhollari fæðu þegar við erum illa sofin. Svefnleysi veldur því einnig að fólk upplifir gjarnan orkuleysi sem gerir það að verkum að það er ólíklegra til að hreyfa sig. Þessir þættir skýra hið sterka samband sem fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á milli langvarandi svefnskorts og ofþyngdar.

 

Lítill svefn eykur líkur á langvinnum sjúkdómum

Skertur  nætursvefn eykur magn bólguefna í líkamanum. Þessi efni eru í raun eðlileg svörun líkamans við skaða á borð við sýkingar og meiðsl. Þessi efni valda bólgum og eru fyrstu varnarviðbrögð líkamans. Ef þessi efni eru stöðugt til staðar þá getur myndast viðvarandi bólga í líkamanum sem veldur skaða með tímanum og eykur hættu á langvinnum sjúkdómum.

 

Þegar fólk missir svefn heila nótt eða sefur skemur en fjórar klukkustundir fara bólguefni (t.d C-reactive protein (CRP) og interleukin-6 (IL-6)) að aukast í blóðinu. Þessa aukningu má sjá jafnvel eftir einungis eina nótt af skertum svefni.

 

Of mikill svefn getur þó einnig aukið líkur á bólguviðbrögðum og það er því hinn gullni meðalvegur sem er bestur þegar kemur að svefninum en flestir fullorðnir þurfa að sofa í 7-9 klukkustundir á sólarhring.

 

Þar fyrir utan getur skertur svefn einnig haft  áhrif á sykurbúskap líkamans og valdið sykursýki og háþrýstingi, ásamt því að auka líkur á hjarta- og æðasjúkdómum. Sársaukaþröskuldur okkar lækkar þegar við erum illa sofin og við verðum því næmari fyrir sársauka. Verkjavandamál geta því versnað við svefnleysi.

 

Svefn og streita

Langvarandi streita er ein algengasta orsök svefnleysis. Skertur svefn hefur áhrif á tilfinningastjórnun og getur aukið bæði kvíða og depurð. Margir kannast við það hvernig þráðurinn er styttri og tilfinningastjórnun í meira ójafnvægi, jafnvel eftir aðeins eina svefnlausa nótt.

 

Við langvarandi svefnskort verða þessi áhrif varanlegri og því eru sterk tengsl á milli skertrar geðheilsu og svefnvandamála. Truflanir á svefni eru til dæmis meðal fyrstu einkenna ýmissa geðraskana, þar á meðal þunglyndis, kvíða, geðhvarfasýki og geðklofa.

 

Svefnvandamál samfara geðröskunum felast yfirleitt í svefnleysi (erfiðleikum við að sofna og halda sér sofandi), ásamt truflunum á draum- og djúpsvefni.

 

Samband svefns og kvíða

Einstaklingar sem þjást af kvíða eiga oftast erfitt með að sofna á kvöldin og vakna oftar á nóttunni. Þar að auki getur djúpsvefn minnkað. Þegar við erum að glíma við kvíða er varnarkerfi líkamans í fullri virkni, hjartað slær ört, öndun er grunn og blóðið er fullt af streituhormónum.

 

Við þessar aðstæður geta fæstir sofnað og ef við náum að sofna er samt eins og viðbragðskerfið sé á vakt og við leyfum okkur ekki að slaka á öllum skilningarvitum og falla í djúpan svefn. Þannig getur kvíði orsakað svefnleysi. Flestir kannast við að eiga erfiðara með að takast á við dagleg verkefni eftir svefnlausa nótt.

 

Fólk sem er illa sofið er gjarnan í tilfinningalegu ójafnvægi. Þráðurinn er stuttur og léttvægir atburðir geta komið fólki úr jafnvægi og valdið kvíða og pirringi. Þannig getur langvarandi svefnskortur ýtt undir kvíða og oft verður ástandið að hálfgerðum vítahring þar sem kvíðinn veldur svefnleysi sem magnar svo upp kvíðann enn frekar.

 

Afar sjaldgæft er að fólk glími við langvarandi svefnleysi án þess að upplifa streitu. Þess vegna er mikilvægt að vinna alltaf með kvíða þegar svefnleysi er meðhöndlað og að sama skapi þarf ávallt að hafa svefninn í huga þegar unnið er með kvíða. Þó að þessir þættir hafi mikil áhrif hvor á annan þarf að vinna með þá báða samhliða því lækning á öðrum vandanum læknar ekki endilega hinn.

 

Sefitude frá Florealis er lyf til að meðhöndla vægan kvíða og svefnvanda. Lyfið fæst í lausasölu í næsta apóteki.

 

Heimildir

 

Alvaro, Pasquale K., Rachel M. Roberts og Jodie K. Harris. „A systematic review assessing bidirectionality between sleep disturbances, anxiety, and depression“. Sleep 36.7 (2013): 1059−1068.

Cappuccio, Francesco P., o.fl. „Meta-analysis of short sleep duration and obesity in children and adults“. Sleep 31.5 (2008): 619.

Gangwisch, James E., o.fl. „Inadequate sleep as a risk factor for obesity: analyses of the NHANES I“. Sleep 28.10 (2005): 1289.

Hasler, Gregor, o.fl. „The association between short sleep duration and obesity in young adults: a 13-year prospective study“. Sleep 27.4 (2004): 661−666.

Moldofsky, Harvey. „Sleep and pain“. Sleep medicine reviews 5.5 (2001): 385−396.

Simpson, N., & Dinges, D. F. (2007). Sleep and inflammation. Nutrition reviews, 65, S244-S252.

Sutton, E. L. (2014). Psychiatric disorders and sleep issues. Medical Clinics, 98(5), 1123-1143.

Tengdar greinar

svefn og kvíði

5 staðreyndir um svefn, heilsu og hamingju

svefn og kvíði

Hversu mikið þurfum við að sofa og hvers vegna?

 

Tengdar vörur frá Florealis

Sefitude

Sefitude  við kvíða og svefnvanda