Jólin eru tími hefða. Tíminn þar sem margir rifja upp gamlar minningar og njóta þess að vera saman. Sumir skapa sínar eigin hefðir á meðan aðrir halda fast í gamla siði sem sumir hverjir eru aldagamlir. Sígrænar jurtir og aðrar plöntur hafa lengi verið órjúfanlegur hluti af jólahátíðinni. Margar þeirra eiga sér langa sögu sem rekja má aftur til vetrarsólstöðuhátíðar heiðinna manna. Þetta eru sígrænar plöntur á borð við greni og mistiltein. Aðrar vinsælar jólajurtir eiga sér styttri sögu sem hátíðarblóm en njóta samt mikilla vinsælda og má þar nefna jólastjörnu sem dæmi.

Hér er að finna skemmtilega fróðleiksmola um nokkrar jurtir og jólahefðirnar í kringum þær.

Mynd: Jez Timms á Unsplash

Greni og jólatré
Það er fátt jólalegra en ilmur af greni enda er það notað í margskonar jólaskreytingar. Þessi sígræna planta hefur lengi verið höfð í miklum metum, sérstaklega á norðurslóðum enda eru barrnálarnar enn fagurgrænar á þessum árstíma.

Sígrænar plöntur eins og greni voru til að mynda lengi notaðar til að fagna vetrarsólstöðum og hækkandi sól. Þær voru tákn frjósemi í hugum manna sem trúðu því að þær gætu stuðlað að góðri uppskeru á komandi sumri. Þá var einnig sú trú bundin við greni að oddhvassar barrnálarnar gætu haldið illum vættum í skefjum. Grenigreinar voru því lagðar við innganga að húsakynnum, notaðar við útfarir og lagðar á leiði.

Notkun á greni til skreytinga á þessum árstíma er því upprunalega heiðinn siður sem seinna var tekinn upp sem kristinn siður í kringum árið 750. Þessi siður færðist síðan um Evrópu og varð algengara að nota grenitré á jólum. Til að byrja með voru þetta rengluleg tré sem ekki voru skreytt. Það var ekki fyrr en uppúr 1600 sem fólk fór að skreyta jólatré. Sá siður byrjaði hjá aðlinum í Þýskalandi og Austurríki þar sem jólatréin voru skreytt með glerkúlum, kertum og borðum.

Siðurinn að skreyta jólatré færðist síðan um Evrópu en ætla má að hann hafi fyrst komið til Íslands í kringum 1850. Þá var jólatré aðallega að finna hjá dönskum fjölskyldum en íslenskar fjölskyldur létu sér nægja að smíða sín eigin og skreyta síðan með lyngi og eini. Það var ekki fyrr en uppúr miðri síðustu öld sem lifandi jólatré fóru að vera vinsæl á Íslandi og nú er vandfundið það heimili sem ekki setur upp að minnsta kosti eitt lítið jólatré um jólin.

 

Mistilteinn
Mistilteinn er sígræn jurt sem er hluti af jólahefðum margra landa. Það er ekki mikil hefð fyrir mistilteini á Íslandi enda vex plantan ekki svona norðarlega. Við könnumst þó flest við jurtina sem kemur við sögu í jólalögum, bókum og kvikmyndum.

Mistilteinn hefur græn lauf en hvít ber og vex villt í Norður-Ameríku, Bretlandi og ýmsum Evrópulöndum. Þar hefur jurtin lengi verið hluti af jólahefðum. Mistilteinn er engu að síður mikill örlagavaldur í norrænni goðafræði því það var ör úr mistilteini sem varð Baldri að bana.

Þegar Baldur fór að dreyma fyrir dauðanum ákvað móðir hans, Frigg, að biðja alla hluti heims, plöntur, menn og dýr að sverja þess eið að meiða ekki Baldur. Allir sóru eiðinn, nema mistilteinninn, þar sem Frigg bað hann ekki um það. Þegar Loki komst að þessu sá hann sér leik á borði og útbjó ör úr mistilteininum.

Það fór svo að þessi ör varð banamein Baldurs enda var mistilteinn það eina sem gat meitt hann. Frigg harmaði son sinn svo mjög að hún grét viðstöðulaust. Tár hennar féllu á mistilteininn og urðu að þeim hvítu berjum sem nú prýða jurtina.

Tár hennar og ást urðu síðan einnig til þess að Baldur lifnaði við og þannig sigraði ástin dauðann. Sökum þakklætis lýsti Frigg því yfir að mistilteinn yrði jurt friðar og væntumþykju. Það þykir því við hæfi að minnast ástarinnar undir mistilteini í kringum jólahátíðirnar.

Siðurinn er þannig að eftir að mistilteinnin hefur verið hengdur upp þá má kyssa þann sem gengur undir hann. Fyrir hvern koss skal taka eitt hvítt ber af mistilteininum. Þegar berin eru búin þá eru kossarnir það einnig.

 

Mynd: Annie Spratt á Unsplash

 

Jólastjarnan

Jólastjarna er vinsælasta jólablómið á Íslandi enda með falleg rauð og græn blöð. Jurtin á uppruna sinn að rekja til Mexíkó og vex þar sem runni sem getur náð allt að 4 metra hæð. Astekar notuðu jólastjörnu við helgiathafnir hjá sér og rauðu laufin voru notuð til litunnar.

Jólastjarnan barst til Norður-Ameríku í kringum 1830 yfir landamærin við Mexíkó. Skömmu síðar barst hún til Evrópu. Árið 1920 tókst bandarískum jólastjörnuunnanda að útbúa dvergafbrigði af jólastjörnu sem hægt var að rækta í potti. Hann markaðssetti síðan plöntuna og tengdi rauða litinn við jólin, enda er þessi árstími blómgunartími hennar.

Jólastjarnan naut strax mikilla vinsælda og fljótlega fór að verða til siðs að nota jurtina sem jólaskreytingu. Jólastjarnan hefur verið ræktuð á Íslandi síðan um 1960 og er núna eitt allra vinsælasta jólablómið á Íslandi.