Höfundur: Aðalbjörg Björgvinsdóttir, fæðinga- og kvensjúkdómalæknir

Algengt er að konur noti ekki sápu á kynfærasvæði. Mikið er um auglýsingar að nota eigi sápu með réttu sýrustigi eða að svæðið þoli ekki sápur. Þessi áróður verður til þess að konur nota einungis vatn við þvotta á kynfærasvæðinu.

Töluvert mæðir á kynfærasvæðinu. Blóð og útferð liggur oft í dömubindum og jafnvel þvag ef einhver þvagleki er til staðar. Húðin verður fyrir nuddi við samfarir og getur því verið viðkvæm og aum fyrst á eftir ásamt því að sæðisvökvi liggur að svæðinu. Raki og sviti getur haldist á svæðinu einkum ef miklar húðfellingar eru til staðar.  Allt þetta veldur því að kynfærasvæðið er ekki almennilega þurrt stóran hluta sólarhringsins.

Slíkt áreiti er líklegasta orsökin fyrir óþægindum á þessu líkamssvæði frekar en sápunotkun. Húðin á ytri kynfærum kvenna er ekki svo frábrugðin annarri húð líkamans sem fólk þvær með hefðbundum sápum.  Það sama gildir um kynfærasvæði karla enda fer lítið fyrir markaðssetningu á sérhönnuðum sápum fyrir kynfæri karla.

Í einhverjum tilvikum getur vissulega verið um ofnæmi að ræða fyrir vissum húðsápum, þvottaefni undirfata eða einhverju efni í dömubindum en það er allt annað mál.

Konur geta lent í slæmum vítahring þegar þær þvo ekki kynfærasvæði með sápu og hreinsa þá ekki almennilega svæðið. Það getur síðan valdið því að húðin verður viðkvæm með tilheyrandi eymslum og óþægindum.  Við slíkt ástand getur venjuleg sápa valdið sviða og meiri óþægindum og þá er sápunni kennt um.

Konur geta notað sína vanalegu sápu og þvegið kynfærasvæðið líkt og önnur svæði líkamans. Mikilvægt er að skola sápuna vel af þar eins og annars staðar. Ég fæ oft þá spurningu hvort í lagi sé að bera sápu á allt kynfærasvæðið og er svarið við því já. Oft safnast mikil óhreinindi í fellingarnar milli skapabarmanna og gott er að þvo þau burt.

Þegar húðin verður fyrir miklu áreiti eins og á blæðingatíma, eftir samfarir eða annað sem gæti gert húðina viðkvæma má nota sömu  krem og fyrir bleyjubörn til að verja húðina fyrir frekara áreiti.

Mikilvægt er að muna að aldrei á að þvo upp í sjálf leggöngin.