Verkir í liðum eru á meðal algengustu vandamála stoðkerfisins. Verkir geta komið fram í öllum liðum svo sem í hnjám, ökklum, mjöðmum og fingrum. Í sumum tilfellum vara verkirnir í skamman tíma en þegar liðirnir eru orðnir varanlega hnjaskaðir þá geta þeir varað í lengri tíma og erfitt getur reynst að meðhöndla þá. Hafi verkir varað lengur en þrjá mánuði er talað um langvinna verki.
Liðverkir eru mjög hvimleiðir og hamlandi, en mikilvægt er að reyna að hreyfa sig eins og mögulegt er og skiptir þar mestu að stunda létta hreyfingu og draga úr álagi á liðina, til dæmis með því að styrkja vöðvana í kring. Hér eru fimm almenn atriði sem allir geta tileinkað sér til að draga mögulega úr verkjum og stuðla þannig að bættum lífsgæðum.
1 Styrktu vöðvana í kringum liðina
Hlutverki vöðvanna er að hreyfa útlimi og veita liðamótum stöðugleika. Það er mikilvægt að vöðvarnir í kringum stærstu liðina séu vel í stakk búnir til að halda liðunum stöðugum og taka hluta af álaginu sem myndast við hreyfingu. Ef vöðvarnir eru sterkir léttir það álaginu af brjóski, beinum og liðböndum.
Sá liður sem flestir finna til í er hnéliðurinn. Verkir í hnjám eru oft ástæða þess að fólk hættir að stunda áhugamál eða aðrar tómstundir sem krefjast álags á hnén, s.s. gönguferðir og hlaup. Með því að styrkja lærvöðvana má minnka álagið á liðinn sjálfan og draga úr verkjum. Einfaldar æfingar sem geta komið þér af stað eru til dæmis hnéréttur, uppstig og hnébeygjur.
2 Gættu að þyngdinni
Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að ofþyngd getur stuðlað að auknu álagi á stóra liði eins og mjaðmaliði, hnéliði og ökklaliði. Oft myndast vítahringur verkja og þyngdaraukningar þegar fólk hættir að hreyfa sig vegna verkja í liðum. Þann vítahring þarf að rjúfa og mikilvægur þáttur getur verið að komast sem næst kjörþyngd. Þegar kemur að því að létta sig skiptir mataræðið alltaf mestu máli en hreyfing getur komið okkur yfir erfiðasta hjallann.
3 Prófaðu köld böð
Nú eru komnir kaldir pottar í flestar sundlaugar landsins. Kæling dregur úr liðbólgum og því er tilvalið að dýfa sér í kalda pottinn, þótt ekki væri nema upp að mjöðmum. Einnig hafa svokölluð skiptiböð verið góð leið til að draga úr stirðleika og verkjum í liðum. Þá er farið til skiptis í kalt og heitt vatn og eykur það blóðflæðið til þeirra svæði sem böðuð eru til skiptis. Ef köld böð eru ekki fyrir þig getur þú prófað að setja kaldan bakstur á þau svæði sem þú finnur verki þegar komið er heim eftir göngutúr eða létta hreyfingu.
4 Prófaðu fjölbreytta hreyfingu
Ávinningurinn af fjölbreyttri hreyfingu er alltaf að koma betur og betur í ljós. Almennt er mælt með því að fullorðnir hreyfi sig að lágmarki í 30 mínútur á dag. Hreyfing er ekki aðeins góð fyrir hjarta- og æðakerfið heldur hefur hreyfing góð áhrif á geðheilsu, taugakerfi og auðvitað stoðkerfið. Ef fólk er með verki í liðum þarf að finna hreyfingu við hæfi. Ef verkir eru í baki eða hnjám er best að hreyfingin sé með lágmarks höggálagi. Þá er gott að ganga, synda, gera sundleikfimi eða hjóla. Styrktaræfingar fyrir kvið, bak, mjaðmir, rass og læri geta skipt miklu máli fyrir stuðning við liðina.
Á undanförnum árum hafa æfingar á borð við jóga, pilates og tai chi orðið vinsælli hér á landi og má hiklaust mæla með þeim fyrir fólk með verki í liðum. Hafa þarf í huga að ofgera sér ekki í byrjun heldur auka álagið jafnt og þétt og vera meðvitaður um hvaða æfingar henta hverjum og einum.
5 Endurskoðaðu matarræðið
Síðast en ekki síst er þekkt að mataræði getur haft áhrif á verki í liðum. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að það að borða reglulega fiskmeti og taka lýsi daglega getur haft jákvæð áhrif á liðina. Mikilvægt er að borða fjölbreytta fæðu og fá næg steinefni og vítamín eins og t.d. D-vítamín sem er mikilvægt fyrir upptöku kalks úr fæðunni. Einnig er mikilvægt að borða grænmeti og ávexti á hverjum degi, takmarka saltneyslu og auðvitað draga úr sykurneyslu. Fjölbreytt og holl fæða eykur enn frekar líkurnar á því að við viðhöldum kjörþyngd sem aftur minnkar líkurnar á of miklu álagi á brjósk og bein í liðum.
Þegar grípa þarf til lyfja
Þegar liðverkir eru farnir að hamla daglegu lífi getur þurft að grípa til lyfja. Það er mikilvægt að minnka bólgur í liðum, því það getur dregið úr vöðvastífni og stirðleika. Fólk á þá auðveldara með að hreyfa sig og finnur ekki eins mikið til.
Jurtalyfið Harpatinum hefur reynst mörgum vel til þess að draga úr vægum lið- og gigtarverkjum. Harpatinum inniheldur útdrátt úr djöflaklóarrót (Harpagophytum procumbens) sem er vel þekkt lækningajurt. Sambærileg jurtalyf hafa verið notuð lengi og er djöflakló eitt mest selda jurtalyf í Evrópu. Fjölmargar klínískar rannsóknir á þúsundum einstaklinga liggja að baki verkun djöflaklóar og sýna að rótin getur stuðlað að minni gigtar- og liðverkjum. Rannsóknirnar sýna einnig að margir gátu dregið úr notkun bólgueyðandi lyfja og jafnvel hætt notkun þeirra með því að nota jurtalyfið. Harpatinum þolist auk þess almennt vel og hefur færri og vægari aukaverkanir samanborið við bólgueyðandi gigtarlyf. Aðeins eru fjögur jurtalyf með viðurkennda skráningu á Íslandi. Harpatinum er viðurkennt jurtalyf og framleitt undir ströngum gæðakröfum lyfjaframleiðslu sem tryggir að neytandinn fær alltaf réttan skammt sem er mikilvægt fyrir bæði verkun og öryggi.
Harpatinum fæst án lyfseðils í apótekum. Notkun: 2 hylki tvisvar á dag. Lyfið er ekki ráðlagt börnum undir 18 ára, þunguðum konum eða konum með barn á brjósti. Ekki skal nota lyfið ef einstaklingur er með ofnæmi fyrir jarðhnetum eða soja, sár í maga eða þörmum. Lesið vandlega upplýsingar á umbúðum og í fylgiseðli fyrir notkun lyfsins. Leitið til læknis eða lyfjafræðings sé þörf á frekari upplýsingum um áhættu og aukaverkanir. Sjá nánari upplýsingar um lyfið á serlyfjaskra.is.