Svefn er ein af grunnþörfum mannsins, jafn mikilvægur eins og næring og hreyfing. Engu að síður er maðurinn eina tegundin sem að sviptir sig svefni sjálfviljugur og dregur það að fara í bólið á kvöldin. Nægur og góður svefn á stóran þátt í að auka hamingju enda vitum við flest hve vansæl við verðum þegar við erum þreytt og illa hvíld. Hér höfum við tekið saman nokkrar staðreyndir um svefn og hvernig svefn tengist hamingju okkar og heilsu.
1. Reglulegur svefn getur dregið úr kvíða
Skortur á svefni ýtir undir kvíða og depurð. Við langvarandi svefnskort verða þessi áhrif varanlegri og því eru sterk tengsl á milli skertrar geðheilsu og svefnvandamála. Truflanir á svefni eru til dæmis meðal fyrstu einkenna ýmissa geðraskana, þar á meðal þunglyndis, kvíða, geðhvarfasýki og geðklofa. Þeir sem að ná að sofa sína 7-9 tíma reglulega eru afslappaðari, hressari og hamingjusamari en þeir sem sofa stöðugt of lítið. Fólk sem er illa sofið er gjarnan illa fyrir kallað og léttvægir atburðir geta komið fólki úr jafnvægi og valdið bæði kvíða og pirringi. Svefnskortur getur þannig ýtt undir kvíða og skapað vítahring þar sem að kvíðinn veldur svefnleysi sem eykur síðan á kvíðann. Þess vegna er mikilvægt að vinna alltaf með kvíða þegar svefnleysi er meðhöndlað og að sama skapi þarf ávallt að hafa svefninn í huga þegar unnið er með kvíða.
2. Góður svefn dregur úr líkum á langvinnum sjúkdómum
Streita er ein helsta ástæða þess að fólk sefur of lítið. Mikil streita og skertur nætursvefn auka magn bólguefna í líkamanum. Aukið magn sést eftir jafnvel bara eina svefnlausa nótt. Ef þessi bólguefni eru stöðugt til staðar þá getur myndast viðvarandi bólga í líkamanum sem veldur skaða með tímanum og eykur hættu á langvinnum sjúkdómum. Þeir sem að ná að sofa nóg eru í minni áhættu en þeir sem sofa of lítið að þróa með sér langvinna lífstílstengda sjúkdóma. Þar fyrir utan getur skertur svefn einnig haft áhrif á sykurbúskap líkamans og valdið sykursýki og háþrýstingi, ásamt því að auka líkur á hjarta- og æðasjúkdómum. Sársaukaþröskuldur okkar lækkar þegar við erum illa sofin og við verðum því næmari fyrir sársauka. Verkjavandamál geta því versnað við svefnleysi.
3. Svefn bætir einbeitingu og afköst
Fólk sem er í svefnskuld á erfiðara með að einbeita sér og hugsa rökrétt. Ef fólk sefur of lítið að staðaldri getur verið erfitt að gera sér grein fyrir áhrifum svefnskorts á daglegt líf. Ástæðan er sú að einkennin eru ekki alltaf augljós og flest allir sem sofa of lítið mæta til vinnu og sinna daglegum skyldum á viðunandi hátt. Þá er orkuleysi, pirringur og lakari einbeiting jafnvel orðið að „eðlilegu“ ástandi sem fólk tengir ekki endilega við of lítinn svefn. Fólk verður líklegra til að gera mistök en ólíklegra til að átta sig á þeim. Úthvílt fólk eru betur í stakk búið að takast á við krefjandi störf og nám sem krefjast einbeitingar og ná oft að afkasta meira á skömmum tíma en þeir sem eru sífellt þreyttir. Þannig stuðlar góður svefn að hamingju í starfi og leik.
4. Svefn bætir kynlífið
Skortur á svefni og þreyta draga verulega úr kynlöngun fólks. Þetta er meðal annars vegna þess að lítill svefn dregur úr framleiðslu kynhormóna á borð við testósterón og getur einnig haft áhrif á frjósemi, sérstaklega magn sæðifruma hjá körlum. Þreyttir karlmenn geta einnig átt í erfiðleikum með að fá stinningu. Þá getur þreytulegt útlit og vanlíðan eftir svefnlaust tímabil dregið úr sjálfstrausti og haft neikvæð áhrif á líkamsímynd okkar. Við upplifum okkur minna kynþokkafull og erum ólíklegri til að stunda kynlíf. Fólk sem að fær sinn svefn stundar oftar kynlíf en þeir sem að sofa illa.
5. Nægur svefn getur dregið úr þyngdaraukningu
Þegar við erum þreytt og illa sofin þá sækjum við í auknum mæli í óhollan og orkuríkan mat. Þetta er meðal annars vegna þess að svefnskortur ýtir undir brenglun í framleiðslu hungurhormónanna leptíns og ghrelins. Leptín gefur heilanum skilaboð um að við séum södd en ghrelin segir heilanum að við séum svöng og eykur matarlist. Við svefnskort minnkar magn leptíns á meðan magn grhelin eykst, sem þýðir að matarlystin eykst hjá okkur á sama tíma. Þannig borðum við meira og oft óhollari fæðu þegar við erum illa sofin. Þá erum við einnig ólíklegri til að stunda hreyfingu þegar við erum þreytt. Þessir þættir skýra hið sterka samband sem fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á milli langvarandi svefnskorts og ofþyngdar. Fólk sem að sefur vel á því auðveldara með að halda sig við hollt matarræði og stunda reglulega hreyfingu sem stuðlar að hamingju og vellíðan.
Tengdar greinar
Hversu mikið þurfum við að sofa og hvers vegna?
Hvernig hefur svefn áhrif á líkamlega og geðræna heilsu?