Mígreni er eitt algengasta heilsufarsvandamál í heimi. Það er ein helsta ástæða vinnutaps hjá fólki en sumir missa allt að 3-5 daga úr vinnu á mánuði vegna mígrenis. Á sama tíma þá er ekki alltaf skilningur fyrir þessu ástandi sem getur bæði haft áhrif á lífsgæði fólks og árangur í starfi. Hér kemur fyrsti pistillinn í pistlaröðinni okkar um mígreni sem er unnin í tengslum við Glitinum, viðurkennt jurtalyf sem fyrirbyggir mígreni.

mígreni glitinum

Hvað er mígreni?

Mígreni er flókinn taugasjúkdómur með sterkan erfðaþátt og er sérstaklega algengur á meðal kvenna. Það er ekki að fullu vitað hver orsökin og meingerðin eru þó svo að nokkrar tilgátur hafi komið fram. Mígreni einkennist af endurteknum höfuðverkjaköstum með miklum sársauka öðru megin í höfði. Höfuðverkurinn versnar oftast við álag eða hreyfingu og er gjarnan sláandi líkt og púls. Mjög algengt er að finna fyrir ógleði og jafnvel kasta upp á meðan á mígrenikastinu stendur. Margir verða einnig næmir fyrir ljósi og hljóði. Mígreniköst vara oftast í 6 – 72 klst og fólk er oft rúmliggjandi  og mjög kvalið á meðan á þeim stendur. Sumir fá mígreni með áru en ára er einskonar röskun á skynjun eða sjón t.d. að sjá skyndilega eldglæringar eða stjörnur. Ekki allir mígrenisjúklingar fá áru og því er mígreni oftast flokkað sem mígreni með eða án áru. Greining á mígreni er fyrst og fremst byggð á heilsufarssögu viðkomandi.

Er hægt að lækna mígreni?

Engin lækning er til við mígreni en sjúkdómurinn er aðalega meðhöndlaður með lyfjum sem eiga að stytta mígreniköst og draga úr sársauka eða með lyfjum sem eru ætluð til að fyrirbyggja mígreniköst og lengja tímann á milli þeirra. Fyrirbyggjandi meðferð er gefin jafnvel þó svo að höfuðverkir séu ekki til staðar. Þetta er gert til að draga úr tíðni og alvarleika mígrenikasta. Þá geta fyrirbyggjandi meðferðir einnig aukið svörun við öðrum mígrenilyfjum sem eru notuð þegar kast kemur.

Hvað veldur mígreni?

Ekki er að fullu vitað hvað veldur mígreni. Upprunalega var talið að mígreni orsakaðist af æðasamdrætti í heila. Nú er mígreni hinsvegar talið vera fyrst og fremst taugasjúkdómur og breytingar á blóðflæði um heilann eitt af einkennum. Rannsóknir hafa leitt í ljós að einstaklingar með mígreni hafa frekar háa taugaspennu í miðtaugakerfi sem gerir þá næmari fyrir áreiti sem getur sett mígrenikast af stað. Mígrenikastið er oftast bundið við annan helming höfuðsins. Talið er að köstin byrji með staðbundinni afskautun taugafruma sem að síðan breiðist út yfir stærra svæði. Þetta ferli virkjar sársaukanema sem koma höfuðverknum af stað. Virkjun á sársaukanemum örvar síðan losun boðefna og sameinda sem valda enn frekari sársauka og losun bólguefna. Þá eru viðtakar serotóníns einnig taldir spila lykilhlutverk en mörg mígrenilyf sem gefa góðan árangur virka á þessa viðtaka í heila.

Hverjir fá mígreni?

Um 70% allra með mígreni eiga nákominn ættingja með mígreni. Mígreni byrjar oft að koma fram snemma hjá drengjum en seinna hjá stúlkum eða á unglingsaldri. Þá eru stúlkur mun líklegri en drengir til að fá mígreni en um 18% kvenna eru með mígreni samanborið við 6% karlmanna. Mígreni er ólæknandi sjúkdómur en það er þó bót í mála að ástandið virðist eldast af fólki þar sem að köstum fækkar eftir 40 ára. Ýmislegt er hægt að gera til að draga úr líkum á kasti t.d. að forðast þekkta mígrenivalda sem geta komið kasti af stað. Mígrenivaldar eru til dæmis hormónabreytingar, stress, óreglulegur svefn, lyfjanotkun, skortur á hreyfingu, rauðvín og kaffi.

 

Tengdar greinar

svefn og kvíði

5 staðreyndir um svefn, heilsu og hamingju

svefn og kvíði

Hvernig hefur svefn áhrif á líkamlega og geðræna heilsu?

 

Tengdar vörur frá Florealis

glitinum

Glitinum – Fyrirbyggir mígreni

Sefitude

Sefitude – við vægum kvíða og svefnvanda