Höfundur:

Hilda Friðfinnsdóttir, Yfirljósmóðir

Meðgöngu- og sængurlegudeild Landspítala.

 

Í gegnum starf mitt sem ljósmóðir hef ég átt fjölmörg samtöl við nýbakaðar mæður. Í flestum tilfellum hafa þær ekki fengið nægilega fræðslu um hvaða áhrif meðganga og fæðing barns getur haft á líkamlegt samband para og hjóna. Flestar konur eru líka óundirbúnar fyrir þær breytingar sem verða á líkamanum eftir fæðingu og að takast á við minnkaða kynlöngun.

Mynd: Andrea Bertozzini

Eru ekki ein

Tímabil meðgöngu, fæðingar og sængurlegu er eitt stærsta breytingatímabilið í lífi fólks. Þetta tímabil hefur einnig mikil áhrifi á líkamlega nánd para þar sem mjög dregur úr löngun kvenna meðan á því stendur. Margar konur finna fyrir mjög lítilli eða jafnvel engri kynlöngun á meðgöngu, minnkaðri tíðni samfara og hafa minni ánægju af þeim. Þessar breytingar geta enn verið til staðar sex mánuðum eftir fæðingu, foreldrar eru óviðbúnir þessum breytingum og telja sig gjarnan vera eina í þessari stöðu.

Á meðgöngu

Meðgangan er tími mikilla andlegra og líkamlegra breytinga hjá konum. Þreyta og andleg vanlíðan getur haft áhrif á löngun í makann á meðgöngu en ánægja í parsambandinu spilar líka stórt hlutverk. Konur sem eru ánægðar í sínum samböndum upplifa almennt meiri ánægju og löngun í ástaratlot. Þær eru jákvæðari gagnvart móðurhlutverkinu og hafa minni einkenni þreytu og þunglyndis á meðgöngunni. Þeir líkamlegu kvillar sem valda því að verulega dregur úr  löngun kvenna á meðgöngu eru ógleði, þreyta, bakverkir, brjóstaeymsli en einnig skortur á þekkingu og áhyggjur af því að skaða barn í móðurkviði.

Eftir fæðingu

Rannsóknir sýna að um 90% para stunda samfarir á fimmta mánuði meðgöngu. Innan við 20% kvenna eru hinsvegar farnar að stunda samlífi með makanum 4 vikum eftir fæðingu en tólf vikum eftir fæðingu er meirihluti kvenna orðinn virkur að nýju. Í íslenskri rannsókn frá 2012 lýstu konur enn minni löngun og minni tíðni samfara sex mánuðum eftir fæðingu. Flestar konur kvíða því að fara af stað að nýju eftir fæðingu og hafa þær lýst því þannig að þær vilji drífa það af. Vandamál sem getur komið upp hjá nýjum foreldrum er meiri löngun hjá feðrum en mæðrum en misræmi í væntingum getur haft áhrif á sambandið.

Margir þættir spila inn í

Margir þættir hafa sýnt sig hafa áhrif á líkamlega nánd eftir fæðingu en það eru fyrst og fremst brjóstagjöfin, sársauki við samfarir og líkamlegar breytingar á spangarsvæði sem eru líklegustu orsakavaldar þess að konur fresta því að byrja að stunda ástarlíf með makanum á ný.  Helsta orsök sársauka við samfarir eftir fæðingu er áverkar á spöng og hringvöðva endaþarms vegna áhaldafæðinga. Konur sem upplifa sársauka og þær sem hafa börn sín á brjósti eru líklegri til að upplifa minni löngun, minni tíðni samfara og minni ánægju af samlífinu miðað við tímann fyrir meðgöngu. Þrátt fyrir þetta er lítill munur á kynhegðun kvenna sem fæða börn sín um fæðingarveg og þeirra sem fæða með keisaraskurði þó að þær síðarnefndu verði oft virkar aðeins fyrr. Hins vegar kljást konur sem fæða með keisaraskurði við færri vandamál  tengt ástarlífinu þrem mánuðum eftir fæðingu en konur sem fætt hafa um fæðingarveg en þessi munur er ekki lengur marktækur sex mánuðum eftir fæðingu.

Brjóstagjöf getur dregið úr löngun

Flestar rannsóknir benda til að brjóstagjöf hafi neikvæð áhrif á kynlöngun kvenna og í kanadískri rannsókn kom í ljós að konur sem brjóstfæddu börn sín voru marktækt seinni til að stunda ástaratlot á ný eftir fæðingu en konur sem höfðu ekki börn sín á brjósti. Íslenskar konur sem eru með börn sín á brjósti virðast upplifa brjóstin sem uppsprettu næringar fyrir börnin en ekki sem hluta af kynímynd þeirra. Varðandi sjálfsmyndina virðist líkamsímyndin sveiflast talsvert í barneignaferlinu og mikið samspil er á milli líkamlegrar og andlegrar líðanar sem iðulega hefur áhrif á konurnar.

Skortur á tíma og orku orsakar minni nánd í samböndum og minni löngun. Foreldrarnir eru að fóta sig í nýju hlutverki með nýjum einstaklingi og þurfa að finna jafnvægi milli foreldrahlutverksins og sambandsins við makann. Nýbakaðar mæður eru oft þreyttar og gera meiri kröfur til umhverfis og aðstæðna fyrir nánar stundir en áður. Þær þurfa meiri tíma og orku til að örvast og truflast auðveldlega þegar barnið er í sama herbergi. Feðurnir hafa meiri þörf fyrir faðmlög og kossa en mæðurnar og benda rannsóknir til þess að mæðurnar séu í svo mikilli líkamlegri nánd við börn sín í gegnum brjóstagjöfina að þær hafi ekki eins ríka þörf fyrir nándina með maka sínum. Sumar konur hafa tilhneigingu til að forðast kossa og faðmlög til að skapa ekki væntingar hjá makanum.

Mikilvægt að ræða saman

Barneignatímabilið er það æviskeið sem einkennist af miklum breytingum og væntingum. Allir verðandi og nýbakaðir foreldrar eiga sér þann draum að þessi tími sé dásamlegur í alla staði. Nauðsynlegt er að parið geti rætt saman um vonir sínar í tengslum við lífið í kringum barnsburðinn. Ástarlífið er mikilvægur hluti lífsins hjá flestum pörum og það er gott að vera undir það búinn að kynhvötin geti minnkað og að vita að það er ekki óeðlilegt. Það er gott fyrir parið að geta rætt saman af einlægni því þannig eru mestar líkur á að báðir foreldrar verði ánægðir.

 

Tengdar greinar

samfarir og óþægindi á kynfærum

Sæðisvökvi – óþægindi eftir samfarir sem erfitt er að tala um

kláði í leggöngum

Kláði í leggöngum og á klofsvæði – hvað er til ráða?

 

Tengdar vörur frá Florealis

Liljonia – Við óþægindum í leggöngum

Rosonia  – Við óþægindum á kynfærum

Smaronia – Við þurrki í leggöngum