Eftir samfarir finna sumar konur fyrir óþægindum á kynfærum og í leggöngum. Ástæðan getur tengst sæðisvökva sem liggur að þessum svæðum eftir samfarir og veldur kláða og sviða.
Eðlilegt sýrustig í leggöngum er 3,8-4,2 en sýrustig sæðisvökva er 7,2-8,0. Þessi sýrustigsmunur gæti verið skýring á þeim óþægindum sem sumar konur finna fyrir stuttu eftir samfarir og er mun líklegri skýring en að um ofnæmi fyrir sæði sé að ræða eins og stundum er talið.
Sæðisvökvinn getur valdið brenglun á sýrustigi legganganna hjá sumum konum og valdið ójafnvægi í bakteríuflórunni. Það getur leitt til ítrekaðra meðferða, jafnvel með sýklalyfjum, sem getur dregið úr áhuga á að stunda samfarir til að þurfa ekki enn einn sýklalyfjakúrinn.
Hvað er til ráða?
Ráðlegt er að skola burtu sæðisvökvann af húðinni fljótlega eftir samfarirnar.
Aldrei á að skola upp í leggöng, það veldur einungis skaða og verri einkennum!
Til að koma í veg fyrir ójafnvægi í bakteríuflóru er hægt að nota í leggöng vörur sem stuðla að réttu sýrustigi eftir samfarir. Þannig er mögulegt að stytta tímann sem kláðinn varir.
Hægt er að setja túrtappa upp í leggögn strax að loknum samförum og láta hann liggja í nokkrar mínútur til að losna við sæðisvökvann. Að því loknu má setja upp hylki eða töflur sem stuðla að bættu flórujafnvægi.
Einnig er hægt að nota smokk svo sæðisvökvinn fari ekki í leggöngin ef ekkert annað virkar.
Eftir skolun er gott að bera á krem sem verndar húðina fyrir sæðisvökva sem getur skilað sér út síðar og þannig komið í veg fyrir mögulega ertingu á þessu svæði dagana á eftir. Krem sem ætluð eru fyrir bleyjubörn virka oft mjög vel því þau mynda eins og hjúp sem hrindir frá sér og valda ekki sviða þó húðin sé viðkvæm.
Höfundur: Aðalbjörg Björgvinsdóttir, fæðinga- og kvensjúkdómalæknir
Tengdar greinar
Kláði í leggöngum og á klofsvæði og hvað er til ráða?
Má nota sápu á kynfærasvæðið?
Tengdar vörur frá Florealis