Höfundur: Aðalbjörg Björgvinsdóttir, fæðinga- og kvensjúkdómalæknir

Kláði í leggöngunum er mjög algengur hjá konum og getur hann verið mismikill eftir tímabili ævinnar en einnig hvar konan er stödd í tíðahringnum. Ýmsar ytri aðstæður geta haft áhrif á kláðann og ástæðurnar geta verið margar. Ekki er óalgengt að konur lendi í vítahring einkenna og reyna að sporna við þeim með alls kyns ráðum og efnum sem hafa raunverulega enga þýðingu og í sumum tilfellum halda vítahringnum við.

Þrusku eða það sem oftast er kallað sveppasýking  þekkja flestar konur af eigin raun.  Hér er ekki um eiginlega sýkingu að ræða því sveppurinn getur átt heima í leggöngunum og á húðinni en í eðlilegu ástandi er hann í lágmarki og veldur ekki óþægindum. Ytri aðstæður eins og mikil streita, inntaka sýklalyfja, óvenjumiklir þvottar og kynlíf geta aukið líkur á þrusku.

Þrusku fylgir aukin klessukennd hvít útferð sem er lyktarlítil. Oftast fylgir kláði í leggöngum og á klofsvæði og ef sýkingin hefur verið lengi geta henni fylgt roði og eymsli.

Stundum finna konur helst fyrir einkennum þrusku utan við leggöngin á klofsvæði og ytri skapabörmum. Oft getur þetta verið vandamál hjá konum sem eru í yfirþyngd og mjúkvefir gera það að verkum að ekki kemst loft á svæði sem liggja saman. Þar verður raki og hiti sem eru kjöraðstæður fyrir sveppinn til vaxtar.

Ef grunur er um þrusku/sveppasýkingu má skoða sig í spegli því oft má sjá einkennandi húðbreytingar á kynfærasvæði. Húðbreytingarnar eru oft hringlaga, ljósari innst en dekkri til kantanna. Innri skapabarmar eru oft rauðir og þrútnir.

Bacterial vaginosis eða flóruójafnvægi er einnig algengt vandamál. Þetta er oft kallað bakteríusýking en er ekki sýking þar sem um er að ræða ofvöxt af loftfirrtum bakteríum. Þessar bakteríur er að finna í leggöngunum eins og sveppina en við breytt sýrustig fá þær tækifæri til að fjölga sér óeðlilega. Það hefur í för með sér eymsli, þunnfljótandi, illa lyktandi útferð, oft eins og vond fiskilykt.  Þessi lykt getur verið svo sterk að konum finnist að þetta hljóti allir að finna en það er sjaldast raunin.

Helstu ástæður geta verið þær sömu og sveppasýkingar, þ.e. streita og álag, sýklalyfjanotkun eða í sumum tilfellum tengt samförum. Þegar einkennin tengjast samförum finna konur fyrir þeim í einn til tvo daga en það getur þó varað lengur þar sem sumar konur eru viðkvæmari fyrir þessu en aðrar. Þetta getur valdið innri togstreitu hjá konum og dregið úr löngun til kynlífs.

Hormónatengt

Þegar breytingaskeiðið nálgast minnkar hormónið estrogen í líkamanum sem veldur mörgum af þeim óæskilegu einkennum sem tengjast breytingaskeiðinu. Slímhúð legganganna verður þynnri og viðkvæmari og það veldur óþægindum við samfarir ásamt kláða og þurrki sem getur dregið úr löngun til kynlífs.  Vegna breytinganna á slímhúðinni geta einnig aukist líkur á þrusku og flóruójafnvægi.

Svipuð einkenni geta einnig komið fram hjá konum með börn á brjósti. Slímhúð legganganna verður þunn og viðkvæm og því getur fylgt þurrkur og kláði ásamt óþægindum við samfarir.

Blæðingar

Sumar konur eru svo næmar fyrir hormónasveiflum að þær geta fundið fyrir þurrki og kláða í leggöngum seinustu dagana fyrir blæðingar.  Þetta er tengt eðlilegum hormónasveiflum tíðahringsins.

Tíðarblóð hefur áhrif á sýrustig (pH gildi) legganga og getur því fylgt kláði fyrstu daga blæðinga. Algengt er að konur telji skýringuna vera ofnæmi fyrir tíðatöppum eða bindum.  Mun líklegra er að þessi sýrustigsbrenglun sé orsökin.

Annað

Ofnæmi, til dæmis fyrir þvottaefni, háreyðinga- eða raksápu. Þegar rakað er á þessu svæði verða oft til lítil sár og þegar hárin koma aftur fylgir því oft kláði.

Til eru sjúkdómar sem valda viðvarandi kláða og því ætti alltaf að leita læknis ef kláði er viðvarandi.

Hvað er til ráða

Vegna sterkrar lyktar, kláða og óþæginda er algengt að konur reyni að þvo sér oftar. Þetta er ekki til bóta því það þurrkar húðina meira upp og getur aukið á einkennin. Aldrei á að skola upp í leggöngin.  Það skolar burtu eðlilegri útferð, þurrkar upp slímhúð, breytir sýrustigi og hefur áhrif á eðlilegt jafnvægi bakeríuflóru sem þar á að ríkja.

Góð regla er að skrá niður einkenni og hvað þú telur valda þeim til að byrja að skilja orsakatengslin. Er þetta reglubundið?  Alltaf á sama stað í tíðahringnum og hverfur jafnskjótt? Er það þruska eða flóruójafnvægi?  Tengt hormónum, samförum, hárvexti eða er þetta af völdum ofnæmis?  Mikilvægt er að skrá niður hvenær einkennin koma og kortleggja hverju einkennin tengjast og þá annaðhvort minnka orsakavaldinn eða reyna að minnka einkennin.

Ýmsar vörur eru til í apótekum sem geta hjálpað konum að komast yfir þessi vandamál en mikilvægt er að átta sig á orsökunum til að velja rétta meðferð og leita til læknis ef einkenni eru viðvarandi.

Í apótekum er hægt að fá sveppalyf án lyfseðils fyrir leggöng og húð. Þegar ástandið hefur varað lengi og erting í húð er mikil getur sveppalyf sem einnig inniheldur vægan stera hjálpað. Bómullarnærföt hleypa lofti frekar að húðinni og getur því verið til bóta að velja þau fremur en nærföt úr gerviefnum.

Flóruójafnvægi er hægt að laga með geli eða hylkjum sem lækka sýrustigið og stuðla að fljórujafnvægi. Ekki er hjálplegt að borða matvöru með þessum bakteríum þar sem þær ná þá ekki í leggöngin þar sem þær ættu að gera gagn. Áður fyrr var talað um að setja jógúrt eða mjólkurvörur upp í leggöngin sem ég get ekki mælt með enda er nú orðið gott úrval til þess gerðum vörum fyrir leggöng sem hægt er að kaupa.

Þær konur sem hafa tilhneigingu til að fá flóruójafnvægi geta notað þessar vörur í fyrirbyggjandi tilgangi. Í erfiðari tilfellum gæti þurft sýklalyf og reyna svo að viðhalda góðu sýrustigi í framhaldi með geli eða hylkjum fyrir leggöng.

Konur sem fá einkennin eftir samfarir geta markvisst notað efni sem breyta sýrustigi og koma á jafnvægi flórunnar fljótt eftir samfarir og dagana á eftir til að sjá hvort hægt er að stytta tímann eða jafnvel koma í veg fyrir kláða og flóruójafnvægi sem getur fylgt sæðisvökvanum.

Konum með hormónatengdan kláða við breytingaskeið eða brjóstagjöf má hjálpa með töflum/kremi fyrir leggöng sem innihalda estrogen.  Læknar geta veitt ráðleggingar um notkun þessara efna.  Einnig getur verið til bóta að nota efni fyrir leggöng sem auka raka eða koma á jafnvægi flórunnar. Gott er að nota sleipiefni við samfarir til að minnka líkur á sárum og eymslum í viðkvæmri slímhúð.

Dagana fyrir blæðingar og einnig meðan á þeim stendur getur verið til bóta að nota gel eða hylki sem lækka sýrustig í  leggöngum eða innihalda lactobacillus.

Húðina er hægt að vernda með því að nota krem sem hrinda frá vökva og koma því í veg fyrir að blóðið liggi að húðinni (oft hvít og þykk, ætluð fyrir bleyjubörn).

Munið að hlusta á líkamann og skrá niður einkenni og hvað þú telur valda þeim til að byrja að skilja orsakatengslin.

Það tekur tíma að ná jafnvægi í flóru legganganna og þótt árangurinn komi ekki alveg strax í ljós þarf það alls ekki að þýða að ekki sé rétt meðhöndlað.

Fleiri greinar um tengd málefni munu birtast hér á blogginu, m.a um óþægindi eftir samfarir og þvotta á kynfærasvæði auk annarra málefna.

Tengdar greinar

samfarir og óþægindi á kynfærum

Sæðisvökvi – óþægindin eftir samfarir sem erfitt er að tala um

óþægindi í leggöngum

Má nota sápu á kynfærasvæðið

Tengdar vörur

Rosonia – Við óþægindum á ytri kynfærasvæði

Liljonia – Við óþægindum í leggöngum

Smaronia – Við þurrki í leggöngum