Höfundur:

Sóley S. Bender, prófessor

 

Það hefur sýnt sig að sjálfsmynd kvenna skiptir miklu máli varðandi vellíðan þeirra sem kynvera. Mikilvægur hluti sjálfsmyndar er líkamsímynd. Meðferð við brjóstakrabbameini getur haft margvísleg áhrif á líkamlega og andlega líðan en einnig á samband við maka sem síðan getur verið áhrifavaldur varðandi kynlíf og gæði lífsins.

Krabbameinsmeðferð

Krabbameinsmeðferð hefur áhrif á sjálfsímynd

Það getur verið mismunandi hversu mikil áhrif eru á líkamsímynd kvenna. Fram kom í kanadískri rannsókn að um 88% kvenna sem fengu meðferð við brjóstakrabbameini lýstu einhverri óánægju með útlit eigin líkama. Brjóstin gegna mikilvægu hlutverki í líkamsímynd kvenna og skipta þau sérstaklega miklu máli varðandi kvenleika, fegurð og kynþokka. Hafa sumar konur lýst því að vera „hálfar konur“ eftir að búið var að fjarlægja annað brjóstið. Sumum konum getur fundist þær ekki vera eins kvenlegar og aðlaðandi í augum annarra og sérstaklega gagnvart þeim sem konan laðast að kynferðislega. Samkvæmt sænskri langtímarannsókn sem náði yfir tveggja ára tímabil kom í ljós að konur sem fóru í brjóstnám upplifðu sig ekki eins aðlaðandi í lok rannsóknar.

Eiga erfitt með að njóta

Meðferð við brjóstakrabbameini getur haft veruleg áhrif á líf kvenna. Konur sem líta mjög neikvætt á eigin líkama og finnst þær þurfa að fela hann geta átt í erfiðleikum með að njóta kynlífs. Í stað þess að vera í núinu og njóta stundarinnar saman þá getur kona sem hefur skömm á eigin líkama ekki leyft sér að njóta. Fyrrnefnd sænsk rannsókn leiddi í ljós að konur greindu síður frá vellíðan á meðan á kynmökum stóð. Athöfnin er því ekki orkugefandi og ánægjuleg heldur elur á óvissu og efasemdum gagnvart eigin líkama.

Krabbameinsmeðferð getur dregið úr kynlöngun

Konur sem fara í lyfjameðferð geta átt í erfiðleikum með að örvast, upplifa þurrk í leggöngum, sársauka við samfarir og erfiðleika með fullnægingu. Ein kona lýsti svona takmarkaðri kynlöngun: „Þetta er það síðasta sem mér dettur í hug þegar ég er með verki á brjóstsvæði, hef misst hárið, er þreytt og ekki aðlaðandi“. Eins og lýsingin gaf til kynna þá er löngun kvenna stundum mjög lítil en það getur þó verið misjafnt og fer eftir mörgum þáttum. Í ljós kom í kanadískri rannsókn að um 17% kvenna sem fóru í meðferð við brjóstakrabbameini sögðust ekki hafa neinn áhuga, flestar höfðu smá til meðal áhuga en mun færri höfðu nokkurn til mjög mikinn áhuga.

Snýst ekki bara um samfarir

Í yfirliti yfir rannsóknir á tímabilinu 1998-2010 þar sem skoðuð voru áhrif brjóstakrabbameins á kynlíf kvenna kom í ljós að flestir rannsakendur takmörkuðu sig við virkni í samförum. Einstaka rannsóknir skoðuðu aðra þætti eins og líkamlega nánd, aðrar kynferðislegar athafnir og tjáskipti. Nauðsynlegt er að skoða þessa þætti og fleiri þætti kynlífs eins og fróun, faðmlag og tilfinningalega nánd sem skipta miklu máli varðandi skynjun konunnar á því að vera elskuð4. En upplifun kvenna af eigin útliti og möguleiki þeirra að lifa heilbrigðu ástarlífi er einnig háð því parasambandi sem konan er í. 

Mikilvægt að hlúa að parasambandinu

Fram kom í ástralskri rannsókn meðal 1999 kvenna að 24% þeirra sögðu að meðferð við brjóstakrabbameini hefði haft mjög mikil áhrif á þeirra parasamband, 26% töluverð, 32% nokkuð og 15% ekki nein4. Þegar maki er tilbúinn að sýna skilning gagnvart breytingum á líkamsútliti konunnar og líðan hennar almennt eru líkur á því að konunni líði betur og það stuðli að kynheilbrigði1,4. Það sem skiptir meginmáli varðandi aðlögun beggja aðila í parasambandi að breyttum aðstæðum eftir meðferð við brjóstakrabbameini er að geta rætt saman um tilfinningar sínar og langanir. Einnig getur það verið hjálplegt að heilbrigðisstarfsfólk ræði þessi mál við konur og pör sem fara í gegnum krabbameinsmeðferð en rannsóknir sýna að efla má þann þátt heilbrigðisþjónustunnar.

Heimildir:

  1. Emilee, G. Ussher, J.M og Perz, J. (2010). Sexuality after breast cancer: A review. Maturitas, 66, 397-407. Sótt af https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/20439140

  2. Boquire, V.M., Esplen, M.J., Wong, J., Toner, B., Warner, E. og Malik, N. (2016). Sexual functioning in breast cancer survivors experiencing body image disturbance. Psycho-Oncology, 25, 66-76. DOI: 10.1002/pon.3819

  1. Fallbjörk, U., Rasmussen, B.H., Karlsson, S. og Salander, P. (2013). Aspects of body image after mastectomy due to breast cancer- A two-year follow-up study. European Journal of Oncology Nursing, 17, 340-345. http://dx.doi.org/10.1016/j.ejon.2012.09.002

  1. Ussher, J.M., Perz, J. og Gilbert, E. (2012). Changes to sexual well-being and intimacy after breast cancer. Cancer Nursing, 35(6), 456-465. DOI: 10.1097/NCC.0b013e3182395401

 

Tengdar greinar

Kynlíf á meðgöngu og eftir fæðingu

samfarir og óþægindi á kynfærum

Sæðisvökvi – Óþægindin eftir samfarir sem erfitt er að tala um

 

Tengdar vörur frá Florealis

Smaronia – Þurrkur í leggöngum

Liljonia – Óþægindi í leggöngum

Rosonia – Óþægindi á kynfærasvæði