Heilsa kvenna, kynheilsa og kynlíf spila stóran ‏‏þátt í lífi hverrar konu. Kynheilsa getur haft ‏áhrif á andlega líðan, sjálfstraust, sjálfsmynd sem og líkamlega líðan og geta því einkenni eins og kláði, sviði og særindi á kynfærum haft veruleg áhrif á upplifun og vellíðan konu sem kynveru.

 

Húðin – mikilvæg forvörn gegn sýkingum

Húðin er okkar stærsta líffæri og eitt af okkar mikilvægustu líffærum þar sem hún er okkar helsta vörn gegn sýkingum. Sú húð og slímhúð sem umlykur kynfærasvæði kvenna er veikari en á öðrum stöðum líkamans þar sem lítið loftar um svæðið, bæði ‏þvag og útferð getur legið að húðinni, og húðin verður fyrir töluverðu áreiti vegna núnings, sem og ertandi og ofnæmisvaldandi efnum. Þessir ‏þættir veikja húðina, draga úr vörnum hennar og verður hún því móttækilegri fyrir sý‎kingum og öðrum óþægindum.

Ekki þjást í hljóði

Flestar ef ekki allar konur upplifa óþægindi á kynfærasvæði, misalvarleg, oft til lengri tíma og jafnvel endurtekið. Því miður er það svo að konur hafa oft einkenni svo mánuðum eða árum skiptir áður en þær fá rétta greiningu og heyrist reglulega frá konum hafa hreinlega gefist upp á að leita sér hjálpar. Vandamálið er í raun tvíþætt. Annars vegar er það svo að konum þykir oft erfitt að ræða þessi mál hvort sem er við sinn lækni eða einhvern nákominn og upplifa einskonar skömm.

Hinn þátturinn er sá að því miður hafa rannsóknir sýnt að konur fá mun minni áheyrn heldur en karlmenn innan heilbrigðiskerfisins og fá ‏því síður skoðun og lausnir á sínum vandamálum. Það er því mikilvægt að heilbrigðisstarfsfólk leggi sig fram við að þekkja vel þá sjúkdóma og kvilla sem tengjast kynfærasvæði og séu tilbúnir að hlusta vel og skoða. En það er ekki síður mikilvægt að konur læri að þekkja sig sjálfar og ræða það sem er að hrjá þær, einnig að leita oftar en sjaldnar til læknis til að fá greiningu, því það er algjör forsenda þess að hægt sé að leita sér lausna. Í langflestum tilfellum eru til lausnir og oft eru þær fleiri en ein ef vitað er hvar og hvernig á að leita. Oft er um væg einkenni eða endurtekin tilfelli að ræða og þá getur kona meðhöndlað sig sjálf með lækningavörum eða lyfjum sem fást í apótekum.

Óþægindi á kynfærasvæði

Konur á öllum aldri geta upplifað óþægindi á kynfærasvæði en tíðnin eykst með hækkandi aldri. Það eru margir þættir sem geta valdið kláða, sviða og öðrum óþægindum á kynfærum. Grunnorsök þessara einkenna eru bólgur sem myndast vegna baktería, sveppa og veira. Einnig getur hormónaójafnvægi valdið breytingu á sýrustigi legganga og konur fengið sambærileg einkenni 2-3 dögum fyrir blæðingar og fyrstu dagana eftir. Að sama skapi getur kona fengið óþægindi fyrstu klukkustundir eða jafnvel einhverja daga eftir samfarir þar sem sæði hefur töluvert hærra sýrustig en er í leggöngum og getur sá munur raskað eðlilegri flóru þeirra. Við þurfum því að venjast þeirri tilhugsun að óþægindi sem konur upplifa orsakast oftar en ekki vegna annarra þátta en sveppasýkinga. Það er allt of algengt að konum sé ávísað sveppalyfjum við óþægindum á kynfærasvæði án skoðunar eða greiningar, en það sem við vitum í dag er að sveppalyf lækna einungis lítinn hluta tilfella. Til dæmis eru einkenni af völdum baktería algengari en af völdum sveppa. Þessi óhóflega notkun sveppalyfja veldur því að sveppalyfjaónæmi er að aukast verulega sem ógnar heilsu okkar.

Breytingaskeið – tímamót í lífi hverrar konu

Það eru viss tímamót í lífi hverrar konur þegar hún fer á breytingaskeið og kvenhormón líkamans minnka. Það er vel þekkt að konur á breytingaskeiði upplifi hitakóf, svefnmynstur raskast og andleg einkenni koma fram en það er minna rætt um áhrifin sem verða á kynfærum. Á ‏þessum tíma minnkar teygjanleiki og sveigjanleiki húðar og slímhúðar, þekjuvefur þynnist, blóðflæði og smurefni minnkar og sýrustig hækkar. Um 85% kvenna upplifa í kjölfarið leggangaþurrk og þar með særindi við og eftir samfarir. Um 65% kvenna fá alvarlegri einkenni eins og sviða, kláða, blæðingar eftir samfarir og endurteknar sýkingar á kynfærum og í þvagfærum eins og bakteríusýkingar, sveppasýkingar og þvagfærasýkingar.

Lichen sclerosus – þögull sjúkdómur

Við viljum vekja athygli á sjúkdómnum Lichen sclerosus sem er þögull sjúkdómur sem fáir hafa heyrt nefndan en ‏þó er áætlað að allt að þúsund konur á Íslandi þjáist af þessum ólæknandi sjúkdómi. Hann getur komið fram hjá konum á öllum aldri en tíðnin eykst verulega í kringum breytingaskeiðið. Sjúkdómurinn kemur í köstum og helstu einkenni eru gífurlegur kláði og sviði á ytra kynfærasvæði. Einnig myndast bólgur og sprungur í húð og finna konur því töluverðan sársauka við kynlíf. Með tímanum þykkist húðin, hún hvítnar, ör myndast, skapabarmar renna saman og leggangaopið þrengist. Almennt tekur nokkur ár að fá greiningu á sjúkdómnum. Þegar sjúkdómurinn ágerist dregur hann verulega úr lífsgæðum konunnar og á vissum tímapunkti er hætta á að hún einangri sig, hætti að geta stundað samfarir, missi frá sér maka, eigi erfitt með að klæðast fatnaði eins og nærbuxum, sokkabuxum og buxum, geti ekki stundað ákveðin áhugamál, missi úr vinnu og geti hreinlega ekki skeint sér með klósettpappír án þess að rífa upp sár. Það er gríðarlega mikilvægt að þessar konur að fá fljótt viðeigandi meðhöndlun til að hægja á framgangi sjúkdómsins.

Það er til lausn

Florealis hefur lagt mikið upp úr að byggja upp kvenvörulínu sem styður við heilbrigði kvenna þar sem konur finna áreiðanlegar og viðurkenndar lækningavörur til að lina einkenni á kynfærasvæði. Vörurnar heita Smaronia, Liljonia og Rosonia og eru fáanlegar í apótekum landsins.

Smaronia

Sérstaklega ætlað konum sem upplifa þurrk í leggöngum og þá oft í tengslum við breytingaskeið eða brjóstagjöf. Ólíkt öðru geli stuðlar það að þykkari og heilbrigðari slímhúð í leggöngum. Hér getur þú lesið þér meira til um Smaronia.

 

Rosonia VagiCaps

Mjúk hylki fyrir leggöng til að draga úr einkennum bólgu, kláða, sviða og útferðar vegna sýkinga, flóruójafnvægis og ertandi eða ofnæmisvaldandi efna. Hylkin eru í þægilegri stærð og auðvelt að koma þeim fyrir. Hér getur þú lesið þér nánar til um Rosonia VagiCaps.

 

 

Rosonia

Mjúk froða sem er borin á ytri kynfæri og dregur mjög fljótt úr kláða, sviða, ertingu og sárum á svæðinu. Rosonia virkar einnig vel sem fyrirbyggjandi fyrir sund, hlaup, hjól eða aðrar athafnir sem gera húðina viðkvæma fyrir særindum. Hér finnur þú upplýsingar um Rosonia

Allar þessar vörur veita húðinni góðan raka, hafa græðandi eiginleika á sár og styðja við uppbyggingu heilbrigðrar húðar sem flýtir fyrir bata og er mikilvægt til að draga úr líkum á endurteknum tilfellum. Florealis hefur einnig markaðssett jurtalyf við endurteknum þvagfærasýkingum hjá konum sem fæst án lyfseðils.

Kynheilsa á ekki að vera tabú

Kynheilsa kvenna er mikilvæg og það að upplifa óþægindi á kynfærum er ekki eðlilegur fylgifiskur þess að vera kona. Það er löngu tímabært að opna meira á umræðuna um kynlíf, kynfæri, kvensjúkdóma og kynsjúkdóma. Ef við leyfum þessu áfram að vera tabú, þá upplifa konur sig einar með þessi vandamál, einangra sig, fá ekki viðeigandi meðferð og vísindamenn finna ekki þörf fyrir að finna lausnir.